16.05.2012 11:43

Me me me og margt fleira



Gemlingar í slökun fyrir krefjandi móðurhlutverkið.

Það var úfinn, þreyttur og ljótur sauðfjárbóndi sem glotti framan í mig þegar litið var í spegilinn í morgun. Allavega átti mín snyrtibudda ekki möguleika á því að breyta þessari mynd í ,,virðulega,, húsfreyju. Ekkert minna en flot og spasl hefði dugað svo nær hefði verið að leita á náðir múrarameistara en snyrtifræðings. En auðveldasta og besta ráðið er bara að vera ekkert að þvælast fyrir farman spegilinn enda í nógu öðru að snúast þessa dagana.
Það var t.d dýrðlegt að enda kvöldvaktina á því að sjá sólina koma upp fyrir fjöllin og hlýja jörðinni ekki veitir af.

Já það hefur verið hvasst kalt og hundleiðinlegt veður en nú trúi ég því að það fari að lagast.
Geldu gemlingarnir fóru út í fyrradag og spjara sig vonandi vel á túninu á Hafurstöðum ásamt fullorðnu hrútunum. Sparikindurnar þ.e.a.s veturgömlu hrútarnir halda bara inni maganum og láta lítið fyrir sér fara svo þeir verði ekki setti út.
Fyrstu lambrollurnar fóru út í gær þegar ég markaði út undan 12 einlembum og 5 tvílembum.
Nei reyndar ekki það voru farnar út tvær kindur með lömb en þau voru svo snemmborin að þau teljast varla með. Í dag verður svo fleira sett út enda plássið löngu búið og rúmlega það.
Það eru komnar sauðburðarstíur út um allt í flatgrifjunni, hlöðunni og síðast á innireiðsvæðinu, já það var engu plássi hlíft. Myndir af því síðar.



Þarna sjáið þið hluta af þrílembuhópnum og takið eftir litasamsetningunni...........mislitt :)
Þessi hyrnda svarta er spari svört mín sem er einstök gæða kind hefur skilað 13 lömbum frá því árið 2008. Hún er undan honum Kveik frá Hesti og skipar sérstakan sess í hópnum.



Það eru mörg ár síðan eins góð útkoma hefur verið eftir sæðingarnar eins og nú í vor.
Endalegar tölur eru ekki í kollinum á mér þessa stundina en stór hluti af vitinu mínu er geymt í góðri bók sem fer ekki úr fjárhúsunum fyrr en síðasta kind er borin.
Á myndinni eru tveir golsóttir hrútar sem eru undan Grábotna frá frá Vogum 2 en Grábotni kom afar vel út og báru allar þær kindur sem voru sæddar við honum. Eins kom Blakkur frá Álftavatni og fleiri vel út, nánar um það síðar.
En kella er kát með fallega svartbotnótta, grábotnótta og golsótta sæðinga þetta árið.

Þrátt fyrir kulda og mikil þrengsli þá hefur sauðburðurinn bara gengið vel enda hjá okkur harðkjarna lið sem hefur alveg fengið að kynnast því hvað alvöru sauðburður í kulda og trekki er.

Það voru blendnar tilfinningar hjá Sveinbirni frænda mínum sem tekið hefu þátt í sauðburði sennilega hátt í sjötíu ár að þurfa að leggjast inná spítala í byrjun sauðburðar til að skipt um mjaðmalið. En skýrsla í símann allt að því daglega bjargar mikilu hjá honum.
Fyrir allnokkru fór hann í aðgerð og ætlaði að drífa sig fljótt af stað aftur en mörg ár eru liðin síðan. Þá var ungt skáld að byrja sinn kveðskap og gerði þessa vísu.......urrar örugglega þegar hún sést hér á blogginu og segir ,,hún er ekki rétt,, en hún stóð fyrir sínum á þeim tíma.

Haltur skakkur gengur hér
ekki er hægt að bæta.
Fyrr en aftur norður fer
hjúkkur fíra og kæta.

Foldalshryssurnar eru komnar á ,,fæðingadeildina,, sína og eru nú undir smásjá og eftirliti svo að ekkert fari nú úrskeiðis.

Mummi brunaði norður að Hólum og tók sjúkraprófin sín á þeim Gosa frá Lambastöðum og Krapa frá Steinum. Fannar hefur enn ekki náð sér og gat því ekki klára dæmið eins og til var ætlast en Krapi bróðir hans sá um að allt færi vel fram og kom svo sannalega í hans stað.
Formleg útskrift er svo þann 25 maí á Hólum. Nánar um það síðar.
Til hamingju með prófið kappar.

Astrid er líka komin heim eftir að hafa lokið fyrsta árinu á Hólum, til lukku með það Astrid.

Margar fréttir og myndir bíða birtingar en kella hefur ekki mikinn tíma þessa dagana, verður vonandi styttra á milli blogga á næstunni.