25.03.2012 22:15

Það var lagið

Sýning vestlenskra hestamanna sem haldin var í Borgarnesi heppnaðist vel og var skemmtileg. Fjöldi gæðinga kom fram og ef mér skjátlast ekki þá sýndu rúmlega 80 knapar hesta sína. Eins og stundum áður ætla ég að deila með ykkur hvað mér fannst af áhorfendabekknum.
Fyrst vil ég nefna tvær hryssur sem að heilluðu mig mikið það voru þær Kná frá Nýja-Bæ og Elja frá Einhamri. Kná er 6 vetra gömul undan Alvari frá Nýja-Bæ og Þóru frá sama bæ, hún var sýnd af Sigurði Óla Kristinssyni,Fákshóla tamningamanni. Fas og glæsileiki einkenndi þessa hryssu og maður fékk á tilfinninguna að höllin væri ekki nógu stór til að hún gæti sýnt okkur allt sem hún vildi. Elja frá Einhamri er gæðingur sem heillar með fegurð og fágun, hún var sýnd af Jelenu Ohm. Hryssan Skriða frá Bergi er líka ein af mínum uppáhaldsgripum þegar kemur að svona sýningum. Kattmjúkur og viljugur gæðingur undan Aroni frá Strandarhöfði og gæðingamóðurinni Hríslu frá Naustum. Skriða dansaði með eigandann Jón Bjarna um höllin og sýndi enn einu sinni hvað eðlismýkt gerir mikið fyrir gæðinga.
Sporður frá Bergi sonur Hríslu og Álfasteins frá Selfossi var góður og ég var virkilega ánægð með að hér í Hlíðinni eru til fimm afkvæmi hans.
Jakob Sigurðsson kom með Árborgu frá Miðey og sýndu þau saman glæsilega gæðingafimi.
Frábært par sem að alltaf heillar með hrífandi samspili og faglegri reiðmennsku.
Jakob kom líka fram með stóðhestana Abel frá Eskiholti og Asa frá Lundum glæsihestar og eftirtektarvert hvað hrossin hjá þeim Jakobi og Torunni í Steinsholti eru vel undirbúin og fallega sýnd.
Linda Rún og Sigvaldi Lárus komu með fallegt atrið i frá Tamningastöðinni Staðarhúsum.
Börn, unglingar og ungmenni áttu stóran þátt í að gera sýninguna svona skemmtilega og gerðu það með glæsibrag.
Þau slógu líka á létta strengi og gerðu grín að nokkrum þekktum knöpum úr heimabyggð.
Já þetta var bara gaman...................takk fyrir góða skemmtun allir þeir sem eitthvað lögðu af mörkum við að gera þetta svona flott.

Sá að hún Iðunn í Söðulsholti hafði verið dugleg með myndavélina svo að vonandi kom myndir inná þá síðu fljóttlega.