12.10.2011 21:29

Já það er langt síðan.......



Þarna er hann Ríkur minn að njóta veðurblíðunnar og safna kröftum fyrir næstu verkefni.
Kannske verða það smalamennskur, skemmtireiðtúr húsfreyjunnar nú eða nýja hlutverkið hans ,,ásetuæfingakennslutæki,, Mumma sem að notar hann óspart fyrir nemendur sína.

Jæja þá er loksins tími til að setjast niður og pára eitthvað á ,,blað,, af fréttum héðan úr Hlíðinni, af nægu er að taka.

Eins og undanfarnar vikur hefur mikill tími farið í smalamennskur og kindastúss en brátt sér fyrir endann á því svona í bili að minnsta kosti. Heimtur eru að skána en eru langt í frá góðar enn vantar t.d rúmlega 60 lömb af fjalli.
Í gær og dag hafa farið um 250 lömb í slátur.
Smaladagarnir hafa verið margir og langir með misjöfnum árangri, verstur var samt síðasti laugardagur en þá var boðið uppá rok og rigningu í óhóflegu magni sem að gerði litla læki að stórfljóti og árnar ófærar.
Um síðustu helgi voru svo þrjár réttir tvær sem að við gerðum skil í þ.e.a.s Hólmarétt og Vörðufellsrétt síðan var það Mýrdalsréttin líka.
Sunnudagurinn fór svo í vigtun og vísindarannsókir þar sem að væntanleg líflömb voru valin til þess að mæta fyrir æðsta dómi.
Á mánudaginn komu þeir Lárus ráðunautur og Torfi frá Búvest að sónarskoða og stiga lömbin hjá okkur. Margar góðar gimbrar fengu staðfesta búsetu í líflambakrónni fyrir veturinn en þeir voru færri hrútarnir sem að þangað komust þetta haustið. Bæði er að hrútaásetningurinn í fyrra var með rílegara móti og eins að við vorum ekki eins ánægð með útkomuna á hrútunum eins og í fyrra. Þrír kappar hlutu samt náð og standa vonandi undir væntingum.
Tveir af þeim eru synir Hriflons frá Hriflu og einn er sonur Asks okkar sem að er sonur Papa, hann stigaðist hæsta af þeim köppum.
Bestu gimbrarnar er undan Hriflon, Kosti, Frosta og honum Svartakolli okkar sem að stendur svo sannarlega fyrir sínu eins og áður. Hér fæddust bara tvennir tvílembingar undan uppáhalds hrútnum mínum honum Kveiki frá Hesti. Heppnin var ekki með afkvæmunum því báðar mæðurnar fengu júgurbólgu þannig að stærð og þroski lambanna var eftir því. Ein gimbur undan Kveik var þó stiguð og kom vel út úr því þrátt fyrir að vera bara 37 kg. Svo er það leynivopnið mitt hann Litli-Sindri Kveiksson sem að frestaði stigun þangað til næsta haust en þá hefur hann vonandi tvöfaldað stærð og þyngd sína. Segir það ykkur ekki nóg??? Hann lúrir samt á góðum genum kallinn.
Það er ekkert grín að þykjast vera sauðfjárbóndi..........með vaxandi viti.

Ekki hefur allt púður farið í kindur því á fimmtudagskvöldið greip menningarþráin öll völd hér á heimilinu. Og vitið þið hvað ??? bara rokið í bæinn á tónleika hjá ,,veiðibóndanum,, í Kjósinni Bubba sjálfum sem að lét gamminn geysa með Sólskuggunum sínum.
Bara flottur kallinn.
Skemmtileg tilbreyting frá kyrrðinni í fjöllunum já og kindajarminu góða.
Já svona láta þessir bændur stundum...................

Á ferðinni um fjöllin hef ég oft fengið að mér finnst góðar hugmyndir um efni til að setja hér á bloggið en hvort það er fjallaloftið, lognið eða rokið þá er hugurinn blankur núna.