08.07.2011 23:53

Landsmót og fleira.........

Nú er svo langt síðan ég hef bloggað að þið hafið eflaust talið að ég væri bara hætt en svo er nú ekki. En dagarnir hafa verið full stuttir og svo brá ég mér að sjálfsögðu á landsmót hestamanna.
Já landsmótið var ljómandi gott frábært hestakostur, skemmtilegt  mannlíf og veðrið bara gott þegar á leið. Þannig að þegar upp er staðið þá man maður bara það jákvæða.
Eitt er það þó sem að ég verð að pirra mig á en það var veitingasalan á svæðinu. Ef að maður lét sér detta í hug að hunsa nestið sitt öðru hverju og versla sér eitthvað í svanginn þá var ekki nóg með að það kostaði hvítuna úr augunum heldur var það bara ekki gott.
Dæmi: lítill bolli af mánudagskjötsúpu ekki með ábót kr. 1400- smurt brauð (þunn stjúpmóður) með hangikjöti og smá salati kr. 850-

Hestakosturinn....... vá ég veit bara ekki hvar ég á að byrja, puttarnir duga ekki til að telja upp skærustu stjörnurnar.
Spuni frá Vesturkoti er ógleymanlegur gæðingur sem að heillaði mig mikið, viljugur, mjúkur, flugrúmur og eins og einn sessunautur minn komst að orði ,,algjörlega óbrjálaður,, gæðingur af bestu gerð.
Það var frábært að sjá hvernig listaknapinn Þórður Þorgeirsson sótti töluna 10 fyrir vilja og geð sem að klárinn virtist eiga skuldlaust.
Ég ætla að telja upp nokkur hross sem að koma uppí hugann svona í fljótu bragði vafalaust gleymi ég nú einhverjum stjörnum sem að ég hef heillast af en reyni.....
Frakkur frá Langholti, Loki frá Selfossi, Konsert frá Korpu, Óskasteinn frá Íbishóli, Kinskær frá Selfossi, Sjóður frá Kirkjubæ og hryssurnar DÍVA frá Álfhólum, María frá Feti, Ronja frá Hlemmiskeiði, Kolka frá Hákoti....................og mörg fleiri.
Sýningarnar með afkvæma hestunum voru skemmtilegar eins og alltaf  uppáhalds hesturinn minn þar var að sjálfsögðu Arður frá Brautarholti.
Sýningar ræktunarbúa voru flottar og erfitt að gera uppá milli búa, að sjálfsögðu héldum við með okkar fólki héðan af nesinu þeim Önnu Dóru og Jóni Bjarna á Bergi.
Til úrslita kepptu svo búin Syðri-Gegnishólar og Álfhólar sem að voru bæði með flota af stórglæsilegum hrossum og knöpum.
Og þetta eru bara kynbótahrossin hina flokkana rifja ég upp seinna.

Félag tamningamanna veitti að vanda reiðmennskuverðlaun FT og að þessu sinni var það Þórður Þorgeirsson sem að hlaut þessa viðurkenningu.
Fríður flokkur FT félaga myndaði heiðursvörð þegar Þórði var veitt þessi viðurkenning og er gaman að segja frá því að Þórður reið stóðhestinum Arði frá Brautarholti við þetta hátíðlega tækifæri.

Mannlífið á þessu móti var einstaklega skemmtilegt, allt yfirbragð og andi til fyrirmyndar.
Svo sannalega góðir dagar á Vindheimamelum, takk fyrir það þið sem að komuð því í kring.

Eins og þið sjáið þá er engin mynd hér á blogginu það er ekki komið til af góðu en uppsetningin á síðunni hefur verið eitthvað að stríða mér. Ég hef þó verið mjög dugleg að taka myndir að undanförnu sérstaklega af folöldum já og hundum. Er að vinna í málinu og get vonandi sett inn myndir fljóttlega.

Er með fullt af fréttum af nýfæddum folöldum og hryssum sem að eru farnar undir stóðhesta en geymi þær til morguns.