18.04.2011 23:33

Sýningin í Faxaborg

Það var gaman á vesturlandssýningunni í Faxaborg á föstudaginn, troðfullt hús og góð stemming.
Enda tími til kominn að vestlendingar létu að sér kveða í viðburðafárinu sem nú gengur yfir.
Eins og stundum áður ætla ég að rifja upp hvað mér var efst í huga á leiðinni heim af sýningunni.
Sýningin hófst með fánareið fulltrúa félaganna þar á eftir komu fulltrúar Félags tamningamanna á vesturlandi.
Þeir sem að tóku þátt í því atriði voru Gunnar Halldórsson, Jakob Sigurðsson, Heiða Dís Fjeldsted, Haukur Bjarnason, Randi Holaker, Agnar Þór Magnússon og Birna Tryggvadóttir.
Eins og við var að búast heppnaðist atriðið vel og þessir heiðursknapar sér og FT til sóma.
Takk fyrir flottu félagsmenn.

Börn og unglingar áttu stór góð atriði og var gaman að sjá hvað efnilegir knapar eru þar á ferðinni.
Svanhvít húsfreyja í Lindarholti og gæðingurinn hennar Númi frá Lindarholti sýndu afar skemmtilegt atriði sem endurspeglaði djúpa vináttu og virðingu. Allar ,,græjur,, óþarfar í því atriði og verður bara spennandi að sjá hvað þau bjóða okkur uppá í framtíðinni.

Þó nokkur fjöldi af stóðhestum kom fram á sýningunni en í mínum huga var Stígandi frá Stóra-Hofi þeirra bestur. Stígandi er undan Aron frá Strandarhöfði og Hnotu frá Stóra-Hofi. Flugrúmur, mjúkur og hreyfingafallegur gæðingur sýndur af Sigurði Sigurðarsyni.

 Atriði með systkynum frá Eystra-Súlunesi var skemmtilegt, já Váli og Vera sem sýnd voru af þeim Jakobi Sigurðssyni og Agnari Þ Magnússyni eru heldur betur eigulegir gripir.

Jódís frá Ferjubakka var frábær að vanda og Eskill frá Leirulæk stóð fyrir sínu eins og venjulega. Þau voru saman í atrið sýnd af þeim Huldu Finns og Gunnari Halldórssyni.

Afkvæi Sólons frá Skáney komu fram en í þeim hópi heillaði Goggur frá Skáney mig mest. Goggur er sonur Glæðu frá Skáney, virkilega flottur hestur sýndur af Jakobi Sigurðssyni.

Í flokki 5 v hryssna hreyf mig mest hryssan Vænting frá Akranesi sem að Ingibergur Jónsson sýndi. Hún er undan Arði frá Brautarholti og Maístjörnu frá Akranesi. Önnur glæsihryssa Dimma frá Gröf vakti líka athyggli með einstaklega skemmtilegum hreyfingum, hún er undan Smára frá Skagaströnd og Hrefnu frá Garðabæ. Björn Haukur sýndi Dimmu.
Villirós frá Neðri-Hrepp sýndi líka skemmtilega takta og á eflaust eftir að gera góða hluti, hún er undan Þey frá Akranesi og Vöku frá Kleifum. Knapi á Villirós var Hlynur Guðmundsson.
Í flokki 6 v hryssna voru glæsihryssur en eftirmynnilegastar eru Sýn frá Ólafsvík og Spóla frá Brimilsvöllum. Sýn er undan Huginn frá Haga og Ísbjörgu frá Ólafsvík gæðingur sem knapinn Lárus Hannesson hafði greinilega mjög gaman af enda urðu sprettirnir betri og betri eftir því sem þeir urðu fleiri. Spóla sýnir snildartilþrif og flaggar væntingum um enn frekari innistæður. Spóla er undan Gaumi frá Auðsholtshjáleigu og Rispu frá Brimilsvöllum.

Auðvitað voru mörg frábær hross á sýningunni sem að ég hef ekki nefnt hér en ég hef gefið ykkur smá sýnishorn af því sem að mér fannst athygglivert.
Sýningin heppnaðist mjög vel og var skemmtileg en ef að eitthvað er aðfinnsluvert þá var það hljóðkerfið sem að skilaði alls ekki sínu.
En lítum bara á björtu hliðarnar og þökkum fyrir frábæra sýningarskrá sem var hreint til fyrirmundar.