28.02.2011 00:04

Enn með mínum augum

Á laugardaginn var haldið skemmtilegt mót í KBmótaröðinni, keppnin fór fram í Faxaborg Borgarnesi. Þó nokkrar skráningar voru og stóð mótið allan daginn.
Keppendur komu víða að og greinilegt að áhugi á keppni sem þessari er mikill.
Úrslitin getið þið sé inná heimasíðu Hestamannafélagsins Skugga en mig langar að deila hugleiðingum frá mínu sjónarhorni.
Ein hryssa sem að ekki komst í úrslit heillaði mig mikið en það var Spóla frá Brimilsvöllum ung hryssa undan Gaumi frá Auðsholtshjáleigu. Þar held ég að sé á ferðinni framtíðargripur sem að með meiri þjálfun eigi mikið inni og sé líkleg til stórræða. Sunna ,,vinkona,, mín frá Grundarfirði var ekki alveg í stuði en eins og ég hef áður sagt hér á blogginu er ég einlægur aðdáandi hennar. Líf frá Skáney er ung og spennandi Sólonsdóttir sem að stóð fyllilega fyrir sínu og verður gaman að sjá hvað hún gerir í dómi í vor. Þristsdóttirin Skotta frá Leirulæk stóð sig með mikilli prýði og var virkilega gaman að sjá hana og húsfreyjuna á Leirulæk sigra sinn flokk með glæsibrag. Leirulækjarbændur geta vel við unað því að hestur frá þeim sigraði einnig B opna flokkinn en það var gæðingurinn Eskill frá Leirulæk með Gunnar Halldórsson eiganda sinn á baki. Magni frá Hellnafelli er ungur og efnilegur stóðhestur undan Gýgjari frá Auðsholtshjáleigu þó svo að ég hafi séð hann betur upplagðan þá heillar hann mig alltaf. Nokkur hross komu fram frá Leysingjastöðum og er framganga þeirra athyggliverð hágeng og fasmikil.
Mér fannst sérlega skemmtilegt að sjá marga efnilega knapa í yngri flokkunum og ætla ekki að gera uppá milli þeirra með því að nefna einhvern þeirra hér. Verð þó að segja að meiri prúðmennska einkenndi sýningar þeirra en oft áður og er það vel.
Efnilegir krakkar sem að stefna hátt og verður baráttan um sæti á landsmóti örugglega hörð.
Uppí hugann koma mörg önnur góð hross en þessi voru mér efst í huga eftir mótið.