30.01.2011 22:43

Folöldin með mínum augum



Dómarar á folaldasýningunni voru Valberg Sigfússon og Þorvaldur Kristjánsson með þeim er einkaritarinn þeirra Iðunn Svansdóttir.

Efsta folaldið í hryssuflokknum var Blómalund frá Borgarlandi undan Smára frá Skagaströnd og Vigdísi frá Borgarlandi.  Í öðru sæti var Spurn frá Minni-Borg undan Spyrni frá Þúfum og Löpp frá Hofsstöðum. Í þriðja sæti var svo Silja frá Söðulsholti undan Sólon frá Skáney og Hildi frá Sauðárkróki.

Efsta hestfolaldið var Spói frá Hjarðarfelli undan Friði frá Búlandi og Fjöður frá Hjarðarfelli. Í öðru sæti var Ófeigur frá Söðulsholti undan Hákoni frá Ragnheiðarstöðum og Blæju frá Svignaskarði. Í þriðja sæti var Jaðrakan frá Hellnafelli undan Dyn frá Hvammi og Hettu frá Útnyrðingsstöðum.

Folald sýningar valið af áhorfendum var Ófeigur frá Söðulsholti.

Öll þessi folöld voru virkilega frambærileg og ræktendum sínum til sóma.
Til hamingju eigendur og ræktendur.

Það er virkilega erfitt að gera uppá milli þessara folalda því að þau eru mjög ólíkar hestgerðir.
Blómalund heillaði mig mjög mikið um leið og ég sá hana hreyfa sig, hún er hreyfinga mikil, skrokkmjúk og  með tandur hreinar gangtegundir með miklu rými.
Ég er sannfærð um að Ásta á Borgarlandi fær þarna algjört hestagull.
Eitt merfolald sem þó var ekki í úrslitum vakti athygli mína en það var hryssan Dís frá Ólafsvík sem er undan Hruna frá Breiðumörk og Perlu frá Einifelli. Gerðin var kannske ekki sérstök en hreyfingarnar og ganglagið var skemmtilegt auk þess var hún einstaklega litfögur beiksokkótt.
Spói frá Hjarðarfelli er virkilega spennandi folald hreyfinga góður og fallegur. Eins og áður sagði er hann undan Friði frá Búlandi sem er sonur Dalvars frá Auðsholtshjáleigu og Baldursdóttur frá Bakka. Friður þessi er ósýndur en átti nokkur afkvæmi á sýningunni sem komu frá fjölskyldunni á Hjarðarfelli. Afkvæmi hans eru mjög áþekk og virkilega spennandi hestefni, nú er bara að bíða og sjá hvort að kappinn kemur ekki fram í vor.
Ófeigur frá Söðulsholti er stór og glæsilegur með frábært brokk, það verður spennandi að sjá hann þegar líður nær tamningaaldri. Amman Hátíð frá Úlfsstöðum var allavega með 10 fyrir tölt og 9.5 fyrir fegurð í reið.
Ófeigur var folald ,,brekkunnar,, og var vel að því kominn.
Valur frá Haukatungu undan Vilmundi frá Feti og Mynd frá Haukatungu var lipur og kom skemmtilega fyrir. Ég er ekki frá því að Valur hafi verið mun betur rakaður en eigandinn Ólafur frændi minn Pálsson.
Faxi frá Borgarnesi sonur Döggva frá Ytri-Bægisá er lipurt og skemmtilegt hestefni. Eigandi hans Þorgeir Ólafsson var sannarlega búinn að leggja sig fram og var Faxi örugglega best bustaði og hirti folinn á sýningunni.

Já það er alltaf jafn gaman að spá í hross ættir, gangleg og útlit svona sýning kyndir bara upp þann áhuga.

Eftir góðan dag í Söðulsholti var svo farið heim og gefið að því búnu var svo brunað á heimaþorrablót hjá góðu fólki í Borgarhreppnum þar sem við áttum góða kvöldstund og auðvitað var spjallað um hross.
Takk fyrir skemmtilegt kvöld kæru vinir.

Fleiri myndir koma þegar netsambandið hjá mér er betra en það hefur verið í kvöld.