06.04.2010 23:45

Vangavelta..............


Þá eru páskarnir frá  og hversdags stússið hefur tekið öll völd, Mummi farinn í Steinsholt og allt komið á fullt hér á bæ. Var reyndar á þó nokkrum snúningi um páskana en svona öðruvísi snúningi. Það var mikið afrekað í dag og öll hrossin sem hér eru á járnum fengu gott trimm. Nokkur voru járnuð en þegar það var frá var dagurinn því miður búinn.
Fyrirmyndarhestur dagsins................já þeir voru bara tveir (svona eins og í auglýsingunni báðir betri) annar var Geisli Glampa sem er að stíga sín fyrstu skref í náminu og hin var Baltasar Arðsson frískur að vanda.

Bíðið nú við ég ætlaði að segja meira frá gæðingunum sem að ég sá á laugardaginn.
Fyrstan skal nefna Arð frá Brautarholti sem mér hefur lengi litist vel á og varð ég ekki fyrir vonbrigðum um helgina. Hreyfingafallegur, mjúkur, rúmur og viljugur............ já er ekki bara best að tala íslensku. Gæðingur punktur.
Aron frá Strandarhöfði kom fram undir öruggri stjórn húsfreyjunnar á Árbakka, þau voru glæsilegt par að vanda og afkvæmin flott. Verð reyndar að játa að mér fannst hann sjálfur bestur. Undantekningin var þó sonurinn Stígandi frá Stóra-Hofi flottur gæðingur sem er sonur Hnotu frá sama bæ.
Álfur frá Selfossi kom fram undir eiganda sínum Christinu Lund og var gaman að sjá það, svolítið öðruvísi uppsettur en áður. Álfadrottningin frá Austurkoti gerði það samt að verkum að ég næstum gleymdi að horfa meira á Álf og hin afkvæmin var bara starsýnt á hana. Þvílíkt djásn.
Höfðinginn Orri frá Þúfu mætti og var heiðraður skemmtileg athöfn og gaman að sjá hann svona vel útlítandi kominn vel á þrítugsaldurinn.
Fláki frá Blesastöðum er líka flugrúmur, fallegur gæðingur en hann og Þórður Þorgeirs áttu frábært loka atriði þar sem að báðir nutu sín vel. Virkilega góðir saman ,,strákarnir,,
Fláka fylgdi systir hans sammæðra Alfa frá Blesastöðum snildargæðingur sem Sigursteinn Sumarliða sýndi. Mumma leist svo vel á hana að hann hefði ekki verið í vafa með stóðhestavalið ef að hún hefði verið stóðhestur.
Mídas frá Kaldbak átti góðan dag og er alltaf svolítið spennandi.
Ég gæti nefnt miklu fleiri hesta sem voru góðir en líka aðra sem að stóðu alls ekki undir mínum væntingum. En það er sem betur fer þannig að misjafn er smekkur manna og eru því örugglega ekki allir sammála mér enda alveg óþarfi.

Íshesta vangaveltur bíða betri tíma.