18.01.2010 22:32

Bara góður dagurStóðið að spóka sig.

Það var voða lítið um að vera í dag en samt gerðist nú margt...............hvernig passar það nú saman? Jú sumir dagar eru bara svona venjulegir og góðir með fullt af afrekum.

Í dag voru tekin DNA sýni úr folöldunum, það fer þannig fram að stórum eyrnapinna er stungið uppí nefið á þeim með það fyrir augu að ná í smá sýni. Þau eru nú skiljanlega ekki öll voða hrifin af þessu brasi samt mesta furða. Ekki yrði ég ánægð með þessa meðferð.
Þetta er gert til að þau hafi staðfest ætterni í sínum pappírum þegar við taka ýmiss hlutverk í framtíðinni.

Það var í fleiri búgreinum hér á bæ sem ræktunarupplýsingar voru skráðar í dag.
Nú er búið að skrá allar kindur hjá þeim hrútum sem þær áttu gleðileg jól með. Þannig að nú getur útgáfa ,,lambafæðingavottorða,, hafist. Á næstu dögum verða svo flestir hrútarnir komnir í frí þangað til 19 desember 2010.
Svo er talað um langt sumarfrí hjá sumum starfsstéttum en það er sko ekkert miðað við hrútasumarfríðið.
Næsta stórvirki í fjárhúsunum fyrir utan daglegt amstur verður svo sónarskoðun.

Úr hesthúsinu er allt gott að frétta en DNAfolöldin eru sannarlega hestar dagsins.