11.03.2009 21:04

Ferningur og fleira.




Þetta er hann Ferningur frá Hallkelsstaðahlíð, eins og þið sjáið er hann ferhyrndur sjarmur.
Ekki er nú meiningin að fjárstofnin verði allur ferhyrndur en mér finnst gaman að hafa fjölbreyttni í þessu. Ferningur er ekki bara ferhyrndur hann er líka ljómandi vel gerður kynbótagripur sem stigaðist vel í dómi hjá sauðfjárráðanautnum s.l haust. Í vor er von á nokkrum lömbum undan honum og verður spennandi að sjá hvernig þau verða.
Mummi á hann Ferning en ég hef ,,forræðið,, yfir honum og ekki lítur út fyrir neina forræðisdeilu á næstunni.

Eins og áður sagði þá smelltum við okkur norður í land í síðustu viku, Randi kom með okkur til að líta á sinn,vorum við komin norður að Hólum um miðjan dag á föstudaginn. Þar horfðum við á fyrsta árs nema þreyta smalapróf (gott fyrir sauðfjárbændur) nú fær Mummi að heyra það næsta haust að hann einn á heimilinu sé lærður smali. Ha ha, sér í lagi ef að illa viðrar þá er ekki hægt að notast við ófaglærða smala. Það var mjög gaman að fylgjast með þessu og frábært hvað prófið reynir mikið á traust og virðingu milli knapa og hests. Meðal annars þurftu nemendur að færa risabolta milli staða, ríða yfir tunnur, bakka langa vegalengd, reiða ,,lamb,, og ríða í sundur ,,lambfé,, og í lokin ríða uppá háan pall sem rétt svo rúmaði hest og varla knapa. Og að smalasveitasið bera hönd yfir augu og rína í kring eða taka eina hressilega hreppstjórasnítu.
Seinna um daginn fengum við svo að sjá hvernig gengur með auka hrossin hjá Mumma, þau Þríhellu, Vinning og Dregil. Vorum við bara mjög sátt með stöðuna á þeim og bíðum spennt eftir framhaldinu. Um kvöldið var svo borðað gæðalamb úr Hnappadalnum og spjallað við góða vini fram á rauðanótt. Morguninn eftir var svo stefnan tekin á Svínavatn þar sem óteljandi gæðingar öttu kappi. Margt var þar spennandi að sjá og væri það að æra óstöðugan að telja upp einhver nöfn.

Í dag var góður dagur í hesthúsinu mikið riðið út og nóg um að vera. Ein dama fór heim eftir að hafa verið hér í dágóðan tíma. Skemmtileg og afar efnileg hryssa hún Jara Kjarnadóttir. Í staðinn kom grár sjarmur sonur Hryms frá Hofi. Spennandi að sjá hvernig hann verður.
En fyrirmyndarhestur dagsins er hún Jara og er vissulega eftirsjá af henni  úr hesthúsinu.