08.02.2009 22:36

Skúta + Gaumur = eitthvað spennandi





Við bloggið mitt í dag er mynd af henni Skútu frá Hallkelsstaðahlíð, hún er 1 verðlauna hryssa í eigu sonar okkar Guðmundar Margeirs. Faðir Skútu er Adam frá Ásmundarstöðum og móðirinn hún Trilla okkar. Skúta er mikill höfðingi og hestagullið hans Mumma. Skúta hefur átt eitt afkvæmi hana Snekkju litlu Glottadóttur, bráð lipurt og hreyfingafallegt tryppi. Hún vann folaldasýninguna hjá Hrossvest sem haldin var í Söðulsholti í vetur og getið þið séð myndir af henni hér á síðunni og eins með því að smella á ,,söðulsholt,, undir tenglar til hægri á síðunni. Núna er Skúta fylfull við honum Gaumi frá Auðsholtshjáleigu og verður spennandi að sjá hvað kemur þar.

Helgin var alveg ljómandi góð, þorrablótið heppnaðist með allra besta móti og allir skemmtu sér vel og sumir lengi. Maturinn var besti þorramatur sem ég hef smakkað verð að nefna heita saltkjötið og súrmatinn, vel súr og ekkert vatnsbragð...........ummmmmmmmmmm.
Og til fróðleiks (hef engra hagsmuna að gæta) maturinn var frá Módel Venus við Borgarnes.
Morguninn eftir reif frúin sig upp og fór í Borgarnes að dæma ístölt sem haldið var á Álavatni. Þar var prýðisþáttaka og margir flottir gæðingar að keppa, spennandi að fylgjast með hverjir eru nú líklegir fjórðungsmótskeppendur.

Félagarnir Ófeigur og Þorri dafna vel og þurfa endilega að smella sér á vigtina einhvern daginn svo að þið getið ímyndað ykkur hvaða hlunkar þeir eru orðnir. Annars voru þeir að knúsa ljóskur í gær, sofnuðu báðir umvafnir ljósu hári fyrir framan sjónvarpið. Örugglega einhverjir sem hefðu öfundað þá.

Þorrablótsgestirnir týndust svo í burtu sumir í gær en aðrir í dag, við fórum að ríða út og nú fer allt í sinn vana gang. Mummi farinn á Hóla og bara við gamla settið og Helgi eftir heima og já náttúrulega Salli draumaprins líka.