16.01.2009 23:41

Sólarpönnukökur og staðan í dag.




Bara svo allt sé á hreinu þá hefði ég átt að blogg 14 janúar (ef það hefði verið samband) um sólarpönnukökusiðinn okkar í Hlíðinni. Þann dag sést sólin aftur hjá okkur eftir jólafríið sitt sem er frá því 30 nóvember. Þá eru alltaf bakaðar pönnukökur og haldið uppá þetta í Hlíðinni. Amma mín hún Hrafnhildur hélt mikið uppá þennan sið og fylgdist grant með því hvort sólin næði að senda smá geisla niður á bæjarhólinn þennan dag.



Núna er ég stödd í höfuðborginni og er bara í ljómandi netsambandiemoticon
Ég brá mér í bæinn m a til að kanna hvort ég fengi ekki nýjan flokksformann sem ég yrði ánægð með. Það er svona eins og að skoða hest hann þarf að vera hæfileikaríkur, heiðarlegur,viljugur og að auki hafa forustuhæfileika á við úrvals forustusauð.
Allt kemur þetta í ljós á sunnudaginn.

Undanfarnir dagar hafa verið fínir þokkalegt veður og gengið vel að ríða út. Nemendurnir að ,,vestan,, eru í góðum gír og lofa góðu. Reyndar eins og margir aðrir í hesthúsinu en þar sem ég veit að orðalagið komst til skila um daginn þá læt ég þetta fylgja.

Eina dagstund tókum við svo í að lesa númerin af kindunum sem nú hafa verið með hrúta sér til skemmtunnar frá því 19 desember. Mest mæddi þetta á honum Helga því hann hefur góða sjón og þar af leiðandi miklu fljótari að lesa númerin heldur en gamla settið með ,,Tigergleraugun,. 
Allt gekk þetta vel og nú eru allir lambsfeðurnir komnir á blað hjá viðkomandi kind.
Næsta vers í kindastússi er svo þegar ,,sónarvinur,, okkar frá Noregi kemur og segir okkur hvað mörg lömb eru í hverri kind.