05.01.2009 23:11

Sitt lítið af hverju






Það var vor í lofti í dag súld, þoka, dumbungur, logn já og ýmislegt fleira sem gæti alveg verið vor.
Þó ekki, of mikill snjór í fjöllunum, jólaskraut, myrkur og  jólaboð í gær. Nei það er ekki vor.

Jólaboðið var frekar fámennt á okkar mælikvarða, en góðmennt engu að síður. Þar mættu frændur, frænkur, vinir og velunnarar. Við erum svo nísk á dagsbirtuna á þessum tíma að boðið byrjaði klukkan fjögur, þá var búið að taka nokkra spretti, járna og ýmislegt fleira.
Við gamla settið erum mjög upptekin þessa dagana að kynna okkur námsefni 1 árs nema hrossaræktar og reiðmennskubrautar Háskólans á Hólum. Hæg heimatökin eins og sagt er. Skoða bækur, blöð og verkefni sem Mummi er með. Síðan þegar kemur í hesthúsið verðum við að fá að sjá og prófa, spá og spekulegra.
Teljum Mumma bara trú um að þetta sé góð upprifjun fyrir hann í jólafríinu. Við höfum verið svo heppin að fá að fylgjast með ,,krökkunum okkar,, sem hafa verið á Hólum og þannig haft tök á að fá smá smjörþef af því sem þar fer fram. Meira um það seinna.