Færslur: 2018 Desember
23.12.2018 11:18
Já það var þá.................
Það er vel viðeigandi í dag að rifja upp góða heimsókn til hans Ragnars á Brákarhlíð fyrir ári síðan.
Við Mummi fórum með gjafirnar til hans og áttum öll góða stund saman.
Mummi var með tölvuna með og sýndi Ragnari fullt af myndum frá reiðhallarbyggingu og öllum framkvæmdunum.
Eins vakti mikla lukku að sjá 15 mín langt videó frá hestaferð sumarsins. Það var eiginlega toppurinn enda átti Ragnar margar góðar minningar frá hestaferðunum okkar saman.
Já reiðhöllin fannst honum frábær og var hann afar áhugasamur um allt sem henni viðkom.
Þessi heimsókn er okkur afar eftirminnileg og þá sérstaklega hvað við hittum vel á Ragnar sem aðeins var farinn að dvelja í gamlatímanum.
En þarna var allt á hreinu hvort heldur það tengdist hrossum eða bara hrútaskránni góðu.
Nú heldur Ragnar jól á nýjum stað.
Ég er viss um að hann borðar vel kæsta skötu, mikið af brúnuðum kartöflum og alvöru rjómatertu hvítur botn með rjóma og coktelávöxtum.
Góðar minningar eru dýrmætar og gott að rifja upp.
21.12.2018 22:37
Vetrarsólhvörf ...............
|
Vetrarsólhvörf og fegurðin sem náttúran bauð uppá hér í Hlíðinni var mögnuð. Bjart, svo langt sem það náði logn og algjör blíða. Já og svo er vatnið ísilagt nánast eins og spegill. Mikið væri nú gaman að fá það helt eins og nokkrar vikur svo að hægt væri að ríða á því. Árið 1995 lagði það rennislétt eins og núna þannig að við gátum riðið út á því í næstum sex vikur. Ári síðar eða 1996 fengum við nokkra daga en síðna þá hefur ekkert verið í boði. Lítið frost og ísinn aldrei fullkomlega traustur og þá eigum við ekkert erindi útá hann. Annars er það helst í fréttum að ástarlífið í fjárhúsunum er í miklum blóma um þessar mundir og eina ósk húsfreyjunnar að það beri góðan árangur. Til að fyrirbyggja allan misskilning þá á þetta sérstaklega við um sauðfjárhópinn en fyrstu hrútar hófu sinn jólaundirbúning þann 18 desember. Allir fengu síðan jólaóskina uppfyllta þann 19 desember. Tuttugu hrútar og nokkur hundruð ær bera nú hitan og þungan af undirbúningi sauðburðar vorið 2019. Húsbændur og hjú vona það besta. Þetta árið sæddum við ekki eina einustu kind og verður því að koma í ljós hvort við fljúgum til fj... með það sama en þessi ákvörðun var tekin. Fyrir þeirri ákvörðun eru tvær ástæður og báðar gildar að okkar mati. Við hinsvegar keyptum 3 nýja hrúta sem okkur líst ljómandi vel á og teljum að geti gert ýmislegt gott. Svona til upplýsinga fyrir ykkur þá eru nýju hrútarnir þeir Valberg frá Stóra Vatnshorni, Kjartan frá Dunki og Sigurður frá Krossholti. Já þessi hópur á bara ekki eftir að klikka. Við settum svo á nokkra sæðinga frá okkur og grisjuðum vel úr hrútastofninum. Lífgimbrarnar þetta haustið voru færri en undanfarin ár en valið ívið strangara. Ég ætla samt að segja ykkur eitt alveg svona í trúnaði ............. veit það fer ekki lengra. Þetta er í fyrsta sinn sem fleiri mislitar gimbrar eru settar á en hvítar. Já og það hefur ekkert með litinn að gera trúið mér. Við erum nokkuð sátt með heimtur og eru þær með allra besta móti m.v síðustu ár. En auðvita vildi maður alltaf fá fullheimt það er önnur saga.
|
08.12.2018 13:36
Það er svo ánægjulegt.
Það er svo ánægjulegt þegar við fáum fréttir af því hvað gengur vel með vini okkar sem nýlega hafa skipt um eigendur.
Já þegar hestarnir eru komnir til annara landa og aðlagast nýjum eigendum er dýrmætt að allt gangi sem best.
Glaðir eigendur gera lífið svo miklu betra.
Það fer líka vel á með þessu tveim í sólinni vestan hafs.
Þau mættu líka á námskeið til Mumma og voru bara býsna kát með hvort annað.
- 1