Færslur: 2015 Desember
27.12.2015 22:34
Jólin, ástin og lífið.
Norðurljósin sáu um að skaffa okkur jólaskraut. |
Það er ekki ofsögum sagt að við höfum haft það ansi gott um jólin, góður matur, flottar gjafir og skemmtilegur félagsskapur.
Jólin eru að stórum hluta hefðir og fyrir gamla sál eins og mig eru þau gósen tíð. Í byrjun aðventu fer ég að rifja upp góðar minningar frá því ég var lítil stelpa hér í Hlíðinni.
Gamli jóladregillinn er hengdur á sinn stað, kerti í engilslíki og háaldraður kertajólasveinn vakna af árlegum dvala.
Ef vel er skoðað má sjá að kveikirnir á engilinum og verslings jólasveininum eru svo vandlega klipptir af að stórar holur eru í höfðinu á báðum.
Þetta var talin nauðsynlega aðgerð á sínum tíma þegar óprúttnir aðilar hótuðu að brenna þessa vini mína sem raunveruleg kerti.
En þeir sluppu blessunarlega við þau örlög og sigla nú hraðbyr að fimmtugu eins og húsfreyjunni tókst á árinu.
Það eru reyndar ekki karamellur á dreglinum eins og í gamla daga en minningin um hvítu karamellurnar sem fengust í Kaupfélaginu lifa góðu lífi.
Á hverju ári ákveð ég að nú skuli smákökubakstur hefjast tímanlega og eingöngu verði bakaðar fáar tegundir sérvaldar af yfirvegun.
Þetta markmið stenst aldrei það eitt er víst.
Venjulega byrja ég seint, baka margar tegundir og þær eru valdar í hálfgerðu æðiskasti.
Ja bara svona ykkur að segja. Auðvita verður að baka þessar gömlu góðu sem alltaf hafa verið bakaðar mann fram af manni (konu).
Svo tilheyrir að baka uppáhald allra á heimilinu og engin alvöru húsfreyja prófar ekki nýja tegund árlega.
Og í þá gömlu góðu daga var auðvita bakaðar hvítar og brúnar rúllutertur, hvítar og brúnar lagtertur........tertur, kleinuhringir, flatkökur og ýmislegt fleira.
Það er nú meiri Guðsblessunin að fengitíminn hjá sauðfénu skuli einmitt vera uppúr miðjum desember annars væri borðleggjandi kökubasar allan janúar. Húfreyjan getur ekki sleppt því ati fyrir nokkurn mun.
Já það fer ríflegur tími í skipulagningu, val og annað vesen sem fylgir því að rækta sauðfé. Hrútaskráin fer á náttborðið um leið og hún kemur út og heimahrútarnir reyna eftir fremsta megni að standast væntingar. Eins og áður hefur komið fram var ég svo ljónheppin að eiga þetta fína afmæli í vor og þá fékk ég m.a eðal kynbótagripi að gjöf. Sauðfjástofninn styrktist verulega af þessu tilefni, nánar um það síðar.
Þetta árið sæddum við vænan hóp og nú er bara að bíða og vona að allt hafi heppnast vel. Frændi minn sem er reyndari en nokkur spaugstofumaður sko í sæðinum vann verkið þetta árið. Þessi í spaugstofunni hefur verið leigubílstjóri í ,,tuttuguogfimmár,, en frændinn frjótæknir í miklu fleiri ár.................
Eitt sinn sat ég fróðlegan fyrirlestur hjá skemmtilegum sálfræðingi sem sagði margt gáfulegt.
Hann sagði m.a ,,sjálfstraust eykst við notkun,, þó nokkur speki það. Lesið þetta endilega aftur og það verður alltaf gáfulegar og gáfulegra.
Ég hef hinsvegar komist að því að þetta á við fleira, nú eða kannske hafa samstarfsmenn mínir í sauðfjáratinum komist að því.....????
,,Sérviska eykst við notkun,, Lesist helst ekki aftur..............þið gætuð farið að trúa því.
En sauðfjárrækt er skemmtileg.
Nú er allt með kyrrum kjörum í fjárhúsunum og ástarlífið blómstrar þar sem aldrei fyrr.
Jólin eru dásamleg og gera margt sem er ekki á allra færi svo sem að halda manni vel að verki við ýmislegat sem ekki er skemmtilegt.
Það er svo gott að miða við að klára hitt og þetta fyrir jól, skapar stundum full háan blóðþrýsting en það hressir.
En jólin koma orðið ansi ört og með þessu áframhaldi veður alltaf nýbakað, skreytt, hreint og ástarlíf fjárhúsunum.
24.12.2015 15:43
Gleðilega hátíð.
|
Kæru vinir, við hér í Hlíðinni sendum ykkur bestu óskir um gleðileg jól og farsæld og frið á árinu sem nú er að líða. Takk fyrir ánægjuleg samskipti á árinu, næsta ár verður svo bara ennþá skemmtilegra. Njótið jólahátíðarinnar og farið vel með ykkur. Sjáumst og hreyrumst hress og kát. |
10.12.2015 21:51
Skemmtileg heimsókn.
|
||||||
Við hér í Hlíðinni fengum skemmtilega heimsókn fyrir stuttu síðan. Vinkonur okkar úr Garðabænum mættu til okkar hressar og kátar að vanda. Gist var eina nótt til að hafa nú nægan tíma til að taka út bústofninn og taka smá reiðtúra. Þessi dama og Sparisjóður þekkjast vel og eru góð saman.
|
10.12.2015 21:41
Vinir í nýju landi.
|
||||
Það er alltaf gaman að fá fréttir af hestunum okkar sem flutt hafa á nýjar slóðir. Hún Framtíðarsýn Gosadóttir er flutt til Ameríku og þegar komið er til annars lands er gott að eignast vini.
|
07.12.2015 22:44
Veður og 85 rokkar.
Á þessari mynd sjáið þið hvernig útsýnið er hér í Hlíðinni á þessari stundu..............það er ekkert.
Dagurinn byrjaði með góðu svikalogni sem gaf til kynna að Kári kallinn væri sennilega að safna kröftum.
Lognið var notað til að undirbúa, festa og fjarlægja allt sem líklegt væri til að fara af stað í svona veðri.
Reyndar erum við jafnt og þétt búin að vigbúast fyrir veðrið enda af þeirri kynslóð sem lítur á veðurfergnir sem heilagan sannleika.
Öllu skepnum gefið ríflega og sérstakt eftirlit með að allt sé eins gott og kostur er.
Að undanförnu hefur verið reglulega farið til fjalla að líta eftir kindum en með litlum sem engum árangri.
Það var svo seint í gærkveldi nú eða nótt sem við fegnum hringingu.
Mér krossbrá þegar ég sá á símanum að þetta var Lóa frænka mín (85 ára) sem var að hringja.
Fyrsta sem mér datt í hug var að eitthvað væri að og það var eitthvað að.......
Lóa sagði mér að tvennt væri í boði annað hvort væri hún orðin alveg snar eða það væri rolla að jarma fyrir utan gluggann hjá henni.
Upp var rokið með tilheyrandi andfælum og málið kannað. Kom þá í ljós að sú gamla var alveg með fulla fimm og frábæra heyrn.
Á hlaðinu stóð sparikindin Hróarskelda með hrússa sinn með sér og bað kurteislega um að ganga í bæinn.
Eins og veðráttan er nú tel ég alveg ljóst að Hróarskelda hefur ekki síðri spádómshæfileika en Birta Líf veðurfræðingur.
Af þessu getið þið séð að Lóa er ekki bara úrvals prjónakona því til viðbótar er hún úrvals smali.
Já það er töff að vera 85 ára.
Ég tók opinberum tilmælum vel og kom mér upp birðum m.a nokkru magni af smákökum sem bakaðar voru í snatri.
Ekki kom fram hvað þær ættu að endast lengi en það er nokkuð ljóst að með þess áframhaldi verða þær ekki jólasmákökur.
Nú rétt í þessu eru hviðurnar að vera mjög miklar þó svo að enn blási úr aust suð austri. Það er ekki tilhlökkunnar efni þegar hann snýr sér í sunnan eða suðvestan hér í Hlíðinni. En þann 3 febrúar 1991 fuku fjárhúsin hér í Hallkelsstaðahlíð.
Búumst við því versta en vonum það besta, góðar stundir.
- 1