Færslur: 2015 Október
22.10.2015 22:09
Ærlegar fréttir
|
Kallinn í tunglinu speglar sig í vatninu. Þrátt fyrir blíðuna í dag er orðið svolítið kalsalegt og alveg ljóst að veturinn er skammt undan. Nú eru sláturlömbin farin í Skagafjörðinn og bara örfáar sláturkindur eftir sem ekki komust fyrir á bílnum þegar lömbin fóru. Vonandi verðum við búin að heimta fleiri lömb áður en síðasta ferðin þetta haustið verður á Krókinn. Ásetningslömbin sem eru með allra flesta móti eru komin inn og njóta þeirra forréttinda að maula græna og góða tuggu. Hrútarnir eru heimaræktaðir, sæðingar, aðkeyptir og afmælisgjafir svo það er ýmislegt í boði þegar kemur að fengitímanum. Gimbrarnar eru heimaræktaðar, sæðingar og afmælisgjafir, já ég veit það er gaman að eiga afmæli. Dagurinn sem að hrútasýningin var haldin var ekki nógu langur hér í Hlíðinni, smalamennskan sem átti svo sem ekki að taka langan tíma breyttist í næturvinnu. Það gerði það að verkum að ég tapaði af fjörinu og varð að láta mér nægja fréttir í orði. Ég þarf endilega að segja ykkur rollufréttir í myndum, það er auðveldast. Ég er ekki að standa mig með myndavélina í fjárhúsunum, það er alveg ljóst. En nú lofa ég bót og betrun. Við fengum kærkomna hjálp í síðustu viku þegar góðviljaðir ættingjar mættu og aðstoðuðu okkur við eftirleitir og fjárrag í nokkra daga. Alveg ómetanlegt að fá þennan mannskap, alla sem einn. Heimtur eru þokkalegar og batna með hverjum deginum, sóttum níu kindur yfir fjallið í morgun og fundum svo þrjár í dag. Verst að mig vantar nokkrar uppáhalds kindur en það er ekki öll von úti ennþá. Já þetta er allt að koma. Mummi smellti sér út til Bandaríkjanna að líta á Gosa vin okkar og fjölskyldu, ferðin var frábær og Gosi í toppstandi. Nú er það hinsvegar Danmörk en þar er kennsluhelgi hjá honum með góðu fólki eins og svo oft áður. Frumtamningar eru í fullum gangi og nokkur býsna skemmtileg hross á járnum. Eins og stundum áður nefni ég nokkra feður tryppana til gamans. Frakkur frá Langholti, Arður frá Brautarholti, Fláki frá Blesastöðum, Gosi frá Lambastöðum, Stæll frá Hofstöðum og Glymur frá Skeljabrekku. Maron vinnumaður er nú orðinn Maron verknemi en hann er byrjaður hjá okkur í verknámi frá FMos. Fyrsta úttekt fór fram í síðustu viku og nú er það bara alvaran fram að jólum. Kappinn er með fjögur hross sem að hann vinnur með í samkomulagi við verknámsbónda. Auk þess tekur hann þátt í öðrum störfum sem nýtast honum við námið. Bara spennandi verkefni fyrir verknema og verknámsbændur.
|
13.10.2015 22:45
Endalaust afmælis.......
|
||||||||||||
Fyrir stuttu síðan fékk ég skemmtilega sendingu með myndum úr afmælinu mínu í vor. Það var hann Finnbogi minn snildar ljósmyndari sem að sendi mér þessar myndir. Takk kærlega fyrir sendinguna hún gladdi mitt ,,síunga hjarta,, smelli inn nokkrum og hinum síðar.
|
11.10.2015 21:22
Haustið í Hlíðinni.
Það hefur verið dásemdar blíða síðustu daga hér í Hlíðinni. Þetta er útsýnið af hlaðinu hjá okkur og mikið vildi ég geta látið þögnina fylgja með á myndinni. Friðsældin er algjör og ef að þetta er ekki staðurinn og stundin með sjálfum sér þá veit ég ekki hvað.
|
||||||||||||||
|
06.10.2015 22:04
Svarta blómið mitt.
|
||||
Sumir rækta margar tegundir í blómagraðinum sínum en ég bara eina. Sparisjóður minn í fullri vinnu við að slá seinni sláttinn í hólfinu sínu, laus við allar selskapsdömur þetta árið. Nú er bara næsta verkefni hjá honum að gera húsfreyjuna stolta af fjölnota hestinum sínum. Það hefur verið óþarflega blautt hjá okkur hér í Hlíðinni að undanförnu og ekki laust við að ég sé búin að fá nóg. Þegar skurðir eru fullir af vatni og bæjarlækurinn orðinn frændi Skaftár þá er þetta að verða gott. En nóg um það því enginn er ástæðan til að kvarta, við höfum það frábært. Nú er smá hlé í kindastússi og því tamningarnar komnar á fullt með mörgum skemmtilegum tryppum. Mummi smellti sér í heimsókn til meistara Gosa í henni Ameríku og ætlar að sóla sig þar um tíma. Við látum eins og það sé blíða af bestu sort hér í Hlíðinni og þökkum fyrir að fá hvorki sólsting né flagnað nef.
|
- 1