Færslur: 2014 Mars
27.03.2014 22:42
Góðir sundsprettir eru hressandi
|
Það er gott að taka sundsprett og æfa þrek og þor við frábærar aðstæður.
Blástur minn og Gangskör léku flóðhesta hjá Jakobi og Addý í Áskoti fyrir stuttu og nutu þess í botn.
Við áttum þess kost að fara með tvö hross í sundþjálfun og völdum systkynin Blástur og Gangskör.
Bæði eru þau undan Kolskör minni en Blástur er undan Gusti frá Hóli og Gangskör undan Adam frá Ásmundarstöðum.
Síðast liðið vor sprakk hófurinn á Blæstri svo að hann hefur verið frá í tæpt ár. Sprungan er að vaxa niður og því gott að æfa sig með ,,mjúkt,, undir fæti.
Gangskör vandaði sig og var ekki alveg örugg um að þetta væri nú lagi en þegar hún hafði vanist þessu var hún hin sprækasta.
Blástur var hraðsyndur og fór fyrstur sem gerið það að verkum að Gangskör gaf í og lagði sig alla fram.
|
Þarna eru þau systkynin að koma uppúr eftir síðustu ferðina að sinni.
Eins og vera ber eftir svona líkamsrækt og sund er farið í hárblástur. Myndin hér gæti þess vegna heitið Blástur í blæstri.
|
25.03.2014 22:22
Af mörgu er að taka þegar ritstýflan hefur verið við völd.
Trilla frá Hallkelsstaðahlíð, faðir Gaumur frá Auðsholtshjáleigu, móðir Skúta frá Hallkelsstaðahlíð. Eigandi Mummi Skúla, knapi og yfirþjálfari Astrid okkar Skou Buhl.
Já Mummi skrapp norður að Hólum að skoða ,,dömurnar,, sínar og eins og sjá má eru þær bara nokkuð brattar.
Þarna er Astrid á Framtíðarsýn frá Hallkelsstaðahlíð, faðir Gosi frá Lambastöðum og móðir Sunna frá Hallkelsstaðahlíð. Mér sýnist bara fara vel á með þeim skvísunum.
Mummi fór á námskeið hjá Júlio Borba sem haldið var í Gegnishólum hjá þeim Olil og Bergi.
Júlio er frá Portúgal og hefur komið hingað til lands í nokkur ár og haldið námskeið við afar góðan orðstýr.
Á myndinni eru Júlío og Olil mjög einbeitt og greinilega með athyglina við eitthvað spennandi. Námskeiðið var frábært eins og öll umgjörð og aðstaða hjá Gegnishólabændum.
Við smelltum okkur einnig á sýnikennslu sem haldin var á Miðfossum en þar var það Olil Amble sem fræddi mannskapinn. Á myndinni hér fyrir ofan er hún að útskýra með miklum tilþrifum eitthvað úr heimi reiðmennskunnar.
Olil mætti með tvö hross með sér þau Álfinn frá Syðri Gegnishólum og Tíbrá frá Keltilsstöðum. Vel skipulögð og fræðandi sýnikennsla með góðum hestum og vandaðri framsetningu. Allt vel undirbúið og ekki tilviljun sem réði efnistökunum og útfærslunum.
Takk fyrir skemmtilega kvöldstund.
Það hefur verið líflegt að venju hér í Hlíðinni þó svo það hafi ekki skilað sér allt hér inná síðuna.
Endurmenntun gæðingadómara sem haldin var í Reykjavík heppnaðist vel og bara spennandi tímar framundan í þeim geira. Mýkt og sanngirni ráða vonandi ríkjum á þeim vettvangi sem allra fyrst.
Ég er búin að dæma nokkur skemmtileg mót síðustu vikurnar og sjá heilmikið af góðum hestum og knöpum.
Ísmótið Svellkaldar konur var skemmtilegt að vanda og margar konur vel ríðandi, alltaf gaman að dæma það mót.
Já það hefur bara verið gaman að dæma öll mótin sem ég hef smellt mér á í vetur.
Og lífið er ekki bara hestar ó nei, það var brunað í ,,leikhús,, í Lyngbrekku á sunnudaginn til að sjá uppfærslu leikfélagsins á leikverkinu ,,Stöngin inn,,
Til að gera langa sögu stutta þá get ég svo sannarlega mælt með því að fólk skelli sér á sýninguna. Ég skemmti mér konunglega og hló fyrir allan peninginn þó að söguþráðurinn sé ekki sá dýrasti sem ég hef séð.
Það er snildin ein að sjá hvað áhugaleikhópar geta gert skemmtilega og flotta hluti.
Svo skemmir ekki fyrir ef að maður þekkir leikarana t.d eru þarna meðhjálparar, bændur, vínbúðarkona, verkalýðsfélagskrifstofukona, sjúkraþjálfari og margir fleiri.
Hljómsveitin er undir stjórn Steinku Páls og spila þau Abba lögin af miklum móði.
Hreppagrobbið læddist aðeins að mér þegar ég taldi stolt upp alla Kolhreppingana sem taka þátt í sýningunni. Flottir sveitungarnir mínir.
Já já það er söngur, dans og hörkufjör í þessari sýningu. Þið verðið bara að skella ykkur.
18.03.2014 21:29
Dramadrottning og hin drottningin
Það sem ég og þó aðallega Hringiða netþjónusta ráðum ekki við að setja inn nýjar myndir þá verður bara ein frá því í réttunum að duga með .
Það er búið að sónarskoða kindurnar hér í Hlíðinni og vitið þið hvað ?
Húsfreyjan er bara mjög sátt og þungu fargi létt af mannskapnum eftir hremmingarnar í fyrra.
Sjá blogg hér á síðunni frá því 23.03 2013.
Sunnudagurinn síðasti var dagurinn sem ég hafið hugsað til í marga mánuði og þá oftast með kvíðahnút í magnum. Guðbrandur á Skörðum kom og sónarskoðaði á fjórum bæjum hér í sveitinni þennan dag. Við höfum átt gott samstarf við sónaskoðunina hér á milli bæja í nokkur ár sem gerir þetta kindastúss bara enn skemmtilegra.
Byrjað var að sóna í Haukatungu síðan í Mýrdal, þá var komið að Hraunholtum og að lokum hér í Hlíðinni.
Andrés í Ystu-Görðum kom með flokkunargang sem reyndist frábærlega þegar kom að því að flokka féð eftir lambafjölda. Tær snild sem skoða þarf alvarlega fyrir næsta haust.
Svo kom okkar fremsta fólk í sauðfjárstússi úr Reykjavíkinni og Borgarfirðinum okkur til aðstoðar. Það er alltaf gott að eiga góða að.
Já það var hraður hjartsláttur og steinn í magnanum þegar fyrstu kindurnar rölltu inní flokkunarganginn góða. Ég beið við endann vopnuð spreybrúsunum sem notaðir eru til að merkja þær kindur sem eru eitthvað annað en tvílembdar. Geldar fá rautt, einlembdar fá blátt og þrílembdar grænt.
Minningin um á þriðjahundrað geldar kindur frá því í fyrra var óþarflega skýr.
Ég leit upp og bjó mig undir það sem koma skyldi með Pollýönnu vinkonu mína bakvið eyrað.
Nú jæja það var þá sjálf drottningin hún mikla Svört sem hafði tekið af skarið og smellt sér fyrst í röðina. Hún stóð hin rólegasta á meðan Guðbrandur sónaði hana með svip sem hæfir bara drottningum. Ég hugsaði með mér að þessi hefði nú oftast verið á toppnum í frjósemi en sennilega væri nú komið að einhverjum hremmingum.
Já já það var svona mest svart sem ég sá framundan þá stundina.
En viti menn Guðbrandur tilkynnti niðurstöðuna ,,þrjú í þessari,, og Svört gekk yfirveguðum skrefum inní merkingahólfið.
Úr augnaráðinu las ég ,,þó svo að hinar klikki þá stend ég við mitt eins og venjulega....... kæra stressaða húsfreyja,,
Hún Svört Kveiksdóttir er drottningin í fjárshúsunum og sennilega veita hún vel af því.
Það sem á eftir kom var framar björtustu vonum og er ekki annað hægt en fagna þeim niðurstöðum. Hún Svört mín gaf tóninn og hann var ekki falskur skal ég segja ykkur.
Það eru jú hátt á annað hundrað kindur í fjárhúsunum sem létu lömbunum í fyrra og því ekki sjálgefið að þær væru að standa sig.
Útkoman á gemlingunum er mjög góð svo nú verða þeir áfram í sérstöku dekri eins og þrílemburnar sem eru í miklu uppáhaldi hjá húsfreyjunni.
Ekki má þó gleyma því að nú er bara mars og ekki sjálfgefið að öll þessi lömb lifi það að vera skráð í fínu bókina ,,til nytja,, á næsta hausti.
Ef að allt gengur eins og til er ætlast og Guð lofar þá fæðast á annað þúsund lömb hér í Hlíðinni þetta vorið.
Það er gaman að vera sauðfjárbóndi en það getur verið helv.... töff.
07.03.2014 21:28
Með myndavélina að vopni
Veðrið var frábært í gær og eftir hádegið mundi ég eftir myndavélinni og skaut nokkrum skotum svona uppá grín.
Þarna er hann Kátur frá Hallkelsstaðahlíð, faðir Auður frá Lundum og móðir Karún frá Hallkelsstaðahlíð. Kátur verður 5 vetra í vor.
Kátur er að þróast skemmtilega og húsfreyjan er að verða býsna kát með Kátinn sinn.
Svo var aðeins tekið á því á brokki...................
Og að sjálfsögðu var stökkið þjálfað smá.
Þessi kappi var kátur og kunni vel að meta snjóinn og færið.
Krapi ætlar svo sannarlega ekki að reka ,,tærnar,, í þegar hann skálmar á tröllabrokkinu sínu.
Hér er það svo flugferðin á brokki og þá er ekkert verið að slíta veginum.
Svo er það bara flugírinn á tölti heim, já það er ekki leiðinlegt að fara út að leika með þessum.
Þarna er hún Lyfting frá Hallkelsstaðahlíð, faðir er Gosi frá Lambastöðum og móðir Upplyfting frá Hallkelsstaðahlíð. Lyfting hefur verið að þroskast og bæta sig með hverri vikunni. Bráðskemmtileg hryssa sem líkist föður sínum mikið bara spennandi að halda áfram með hana.
Gott geðslag, mýkt og skemmtilegheit enda er hún orðin töluvert í uppáhaldi skal ég segja
ykkur. Tryppin sem við erum að temja undan honum Gosa frá Lambastöðum eru svona.
Já það er gaman í vinnunni þegar tryppin leggja sig fram og eru skemmtileg.
Hér er svo hún Marie okkar á honum Fanga mínum sem er undan Þór frá Þúfu og Andrá frá Hallkelsstaðahlíð. Það fer bara vel á með þeim í góða veðrinu.
Fleiri myndir við fyrsta tækifæri.
05.03.2014 22:06
Borba , Harvard og allt hitt.
Síðast liðinn fimmtudag var brunað í Borgarnes en þar voru þau Sigurður Sigurðarson og Hulda Gústavsdóttir með sýnikennslu. Þau komu með sitt hvort hrossið og sýndu hugmyndir af þjálfun með sérstakri áherlu á fullorðin keppnishross.
Mummi fór með tvö hross sem að þau fengu lánuð í sýninguna.
Fróðleg og skemmtileg kvöldstund.
Um helgina skellti Mummi sér svo á námskeið hjá Julio Borba sem haldið var í Syðri - Gengishólum. Julio kemur frá Portugal og hefur verið með námskeið hér á landi í átta ár. Það eru Olil og Begur í Syðri-Gegnishólum sem hafa veg og vanda að þessum námskeiðum.
Mummi fór með Kát Auðs og Karúnarson með sér og var mjög ánægður með námskeiðið í alla staði. Julio er frábær hestamaður og samvinna hans og Olil á námskeiðunum skemmtileg.
Það er gaman að prófa eitthvað nýtt en Mummi var búinn að kynnast hluta af vinnubrögðunum þegar hann hefur verið að fara í tíma til Jakobs Sig.
Jakob er snildar reiðkennari það getum við hér í Hlíðinni svo sannalega vottað því við höfum öll farið til hans á námskeið.
Á laugardaginn brunaði ég svo í Búðardal að dæma töltmót sem að Glaðsfélagar héldu í reiðhöllinni. Skemmtilegt mót og þó svo að hestarnir væru ekki komnir í mikið form áttu sumir bara góðan dag. Alltaf gaman að koma í dalina.
Um næstu helgi fer ég svo til Reykjavíkur að dæma Svellkaldar konur sem keppa þar á ís.
Við erum búin að fá nokkra þokkalega daga til útreiða í vikunni og það telst nú fréttnæmt.
Það er orðið svo langt síðan ég hef tilkynnt hest dagsins að það er rétt að nefna heil þrjú stykki núna. Fyrst er það Bára litla Arðsdóttir frá Lambastöðum, svo Ósk Eldjárnsdóttir frá Miðhrauni og að lokum skemmtikrafturinn Kliður Aðalsson frá Steinum.
Svo eru náttúrulega mörg fleiri sem eru býsna skemmtileg en þetta eru hross dagsins.
Þá eru það hundafréttirnar............. Freyja litla smellti sér í ,,Harvard,, og er þar enn.
Það er ekki seinna vænna að kanna hvort hún ætlar að verða ,,Deilu betrungur,, eða ekki.
Nú er bara að bíða og sjá til hvort hún verður útskrifuð frá Harvard eða hvort stofnaður verður tossabekkur svona sérstaklega fyrir hana.
Það er ekki grín að ganga menntaveginn.............sérstaklega ef að maður er hundur.
Ófeigur þakkar sínum sæla fyrir að engum hefur nokkru sinni dottið í hug annað en leikskóli þegar hann á í hlut. Og Snotra, já hún er að eigin áliti fullnuma og ríflega það.
Svona eins og Georg Bjarnfreðarson með fimm háskólapróf og ekki þarf hún á Dale Carnegie námskeið því hún er alveg óhrædd að tjá sig.
Hún Marie okkar átti afmæli í dag og sýndi það svo um munaði að hún er snildar bakari. Við fengum þessa fínu köku í kaffitímanum. Innilega til hamingju með daginn Marie :)
Já það er ekki sæmt þegar aðstoðardömurnar eru líka snillingar í eldhúsinu.
01.03.2014 22:20
Hann pabbi minn
Ólafur Kjartansson faðir minn hefði orðið 70 ára í dag ef hann hefði lifað.
Hann drukknaði í Oddastðavatni aðeins 22 ára að aldri þann 4 júní 1966 þegar ég var 1 árs gömul. Hræðilega sorglegt slys sem reyndist mörgum erfitt.
Eins og gefur að skilja kynntist ég honum ekki en hef með góðra vina hjálp reynt að fá mynd af því hvernig hann var. Eða öllu heldur bætt við þá mynd sem ég hef búið til í mínum huga um hann.
Þessa mynd hef ég átt frá því að ég man eftir mér og reglulega skoðað hana og hugsað um það hvernig pabbi liti út í dag ef að hann hefði lifað.
Ég dáðist af myndinni og þessum manni sem var eitthvað svo framandi og fallegur í mínum huga.
Þetta var sko pabbi minn.
Þessa skemmtilegu mynd sendi hún Dunna frænka mín mér um daginn en þarna eru þeir bræður Jóhann og pabbi. Ekki veit ég hvað þeir eru gamlir þarna en allavega komnir með bindi og mjög alvarlegir fyrir framan myndavélina. Jói til vinnstri og pabbi til hægri.
Ég hef reynt að safna eins mörgum myndum af pabba eins og ég hef getað en þær hafa vafalaust ekki verið margar til.
Sem sagt í dag var dagurinn hans pabba, ég trúi því að hann líti eftir stelpunni og hnippi í hana þegar við á. Já ég hef reyndar alltaf gert ráð fyrir því að við hittumst síðar og þá er nægur tími til að kynnast og hafa gaman.
Til hamingju með daginn þinn pabbi minn.
- 1