Færslur: 2011 Mars

29.03.2011 21:01

Já já bara kominn 29 mars



Á vaktinni........................Snotra, Deila, Ófeigur og Þorri láta ekkert fram hjá sér fara.

Nú hefur tíðarfarið heldur betur breytt um stíl og boðið er uppá blíðu alla daga.
Kærkomin breyting og blíðan nýtt frá morgni til kvölds við tamningar og þjálfun.
Fyrirmyndarhestur dagsins var Kjós litla Gosa og Dimmudóttir bara svo yndisleg.

Í gær boðaði landbúnaðarnefnd Borgarbyggðar til opins fundar um landbúnaðarmál. Á milli 40 og 50 manns mættu á fundinn sem haldinn var í Borgarnesi. Fundurinn var nokkuð góður og fóru fram líflegar umræður um þau mál sem að efst eru á baugi í þessum málaflokki.
Ekki fannst mér fulltrúar í sveitastjórn sýna þessum málum mikinn áhuga en einungis tveir sveitastjórnarmenn mættu á fundinn, þau Ingibjörg Daníelsdóttir formaður nefndarinnar og Finnbogi Leifsson.
Spurning hvort að langvarandi áhugaleysi flestra sveitastjórnarmanna á landbúnaðarmálum hefur nokkuð með það að gera að úrvinnsla á landbúnaðarvörum er nærri útdauð í Borgarnesi? Vonandi ekki.................
Ég var ákaflega ánægð með fundarsókn sveitunga minna héðan úr gamla Kolbeinsstaðahreppi sem að frestuðu aðalfundi búnaðarfélagsins til að mæta á fundinn.

Forðagæslumaðurinn hún Guðrún Fjeldsed mætti í árlega vorskoðun hingað í dag, hún er orðin eins og fuglarnir kærkominn vorboði.




26.03.2011 22:58

Allt í hund og kött................



Keli það á að fara taka mynd vertu stilltur einu sinni.....................



..................vú er ekki smart að láta eina löpp hanga ???



Ha ha ..........Snotra þú ert nú svolítið hallærisleg.............................



Hættu Keli þú ert sjálfur........................ömulegur, sjáðu fínu tönnina mína hún er hættuleg.




Veistu ef að þú hættir ekki að stríða mér þá kalla ég bara á Ófeig vin minn................
.

Sko ég vissi að þú væri skíthræddur við Ófeig.................ég vann.

21.03.2011 21:45

Fréttir

Eins og þið hafið séð hefur bloggið orðið illilega útundan hjá mér síðustu vikuna en nú skal úr því bætt. Ekki var það fréttaskortur sem að orsakaði þessa ritleti heldur nægt framboð af hinum ýmsu verkefnum.
Skúli hefur verið að hlaupa í rúning þegar ekki hefur viðrað til útreiða og ég því á köflum verið ansi einráð í hesthúsinu. Góð lausn hjá honum því að annars værum við bara að jagast um hver tæki meiri tíma í inniaðstöðunni. Því eins og það er nú gaman að ríða út í góðu veðri og skemmtilegu vetrarfæri þá er jafn leiðinlegt að basla í vondu veðri oft með ung trippi.
Svona er maður nú orðinn kröfuharður eftir góða veðrið síðast liðna vetur.
Astrid hefur svo komið reglulega og aðstoðað okkur helling bæði í fjárhúsunum og hesthúsinu.
Núna er Guðbjörn mættur svo að ,,skítamálin,, verða brátt draumamálin ein:)

Á laugardaginn fór ég norður í Skagafjörð á endurmenntunnarnámskeið íþróttadómara sem haldið var á Sauðarkróki. Veðrið var frekar leiðinlegt og því alveg ljómandi gott að fá far með góðu fólki. Takk fyrir mig Erla og Jonni.
Já vel á mynnst þegar ég var að bruna í Borgarnes í veg fyrir samferðarfólkið klukkan rúmlega sex um morguninn, sá ég sjaldgjæfa sjón allavega hér í Hnappadalnum á þessum árstíma. Jeppa var lagt við útskot sem ætlað er Gullborgarhellagestum og öðrum ferðamönnum, við hliðina á bílnum var tjald sem að ferðalangarnir höfðu sett upp.
Ég var kappklædd með miðstöðina í botni en fékk samt ónotalegan kuldahroll við að sjá þetta. 
Svona í túnaði sagt þá er alveg nóg fyrir mig að sofa í tjaldi annað hvert ár á heitasta tíma ársins...... nánar tiltekið á landsmóti.

Í gær kom svo hann Jonni okkar norski,sónarskoðaði kindurnar og taldi í þeim fóstrin.
Spurning hvort að ég á ekki bara að setja punktinn hér?
Nei læt það flakka þó svo að ásetningur minn sé oftast sá að deila hér jákvæðni í hærra hlutfalli en neikvæðni. En útkoman er þannig að við erum langt í frá ánægð og ljóst er að við fáum sennilega um hundrað færri lömb en við bjuggumst við. Tveir yngstu árgangarnir koma illa út hvor á sinn máta um helmingur gemlinganna eru geldir og 30% af tvævetlunum eru með eitt lamb.
Eldri árgangar koma nokkuð vel út og sumir afbragðs vel, ef að frá eru dregnir gemlingarnir þá er ekki fleira gelt en venjulega.
Nú standa yfir vísindarannsóknir um frjósemi og ýmislegt fleira og kemur vonandi eitthvað gáfulegt út úr því.
Að lokum nokkrar staðreyndir..............og að sjálfsögðu fyrst þær jákvæðu.

Jákvætt:
Nóg pláss um sauðburðinn þar sem að geldfé verður komið út í vorblíðuna.
Þarf ekki að nota merkin yfir 1100 þau verða því geymd til betri tíma.
Pálína forustusnillingur og Fera gamla eru báðar með tvo lömb í bumbunni.........vonandi gimbrar.
Mamma Sindra Kveiks klikkaði ekki frekar en venjulega og er með þremur.


Neikvætt:
Von á mun færri lömbum en venjulega.
Hef fjárfest í of mörgum lambamerkjum og þarf að liggja með þau í geymslunni.
Stórir og myndarlegir gemlingar lamblausir.
Innleggið í haust aumingjalegra en til stóð.

Vafaatriði:
Átrúnaðargoðið Golsa geld, notar árið í að stækka........ svo getur hún bara fóstrað Kela kött þar sem að þau eru alveg í stíl hvað ,,litasetteringu,, varðar.
Sýltkolla mín með einu lambi sem ekki hefur gerst áður.........æi greyið verður nú að fara vel með sig.
Er útkoman ESB, Icesave eða ríkisstjórninni að kenna?
Maður bara spyr sig????????

14.03.2011 22:43

Kári kallinn

Kári kallinn var frekar æstur hér í Hlíðinni síðasta sólarhringinn og gerði nokkur skammarstrik af sér. Hurðin á hlöðunni varð að láta undan og járnið á bragganum var komið í ferðahug þegar vaskir menn náðu að kyrrsetja það. Allt endaði þetta samt vel og með hjálp góðra manna varð hurðin betri en ný og járnið verður að vera til friðs aðeins lengur.
Nú er bara að vona að veðurspáin rætist ekki eða rokið komi ekki úr suðvestri.

Á laugardaginn brunaði ég í bæinn til að taka þátt í  endurmenntun gæðingadómara.
Gott námskeið og aldeilis frábær fyrirlestur hjá Jóhanni Inga sálfræðingi sem að deildi gullkornum til okkar hestamanna.
Um kvöldið áttum við svo skemmtilegar stundir með góðum nágrönnum, takk fyrir okkur Sigga og Ásberg.
Annars hefði ég nú kosið að sjá hana Erlu Guðnýju vinkonu mína sigra aðrar svellkaldar konur á ísnum en ég er alltaf að læra að alsstaðar get ég ekki verið.




10.03.2011 22:39

Tekur forustu............



Fyrir nokkru síðan var brunað í Borgarhreppinn en eins og áður hefur komið fram þá dreif ég í því að koma háaldraðri og ráðsettri Foru Pálinu á sjens. Nú var komið að því að sækja dömuna og koma henni heim til sín.
Hér fyrir ofan sjáið þið mynd af gripum sem að hlottnaðist sá mikli heiður að bæta forusturæktunina hér í Hlíðinni.
Sannarlega kostagripur bæði ,,langsóttur,, og langræktaður í beinan forustusauðalegg af norðurlandi, nú í eigu Jóa frænda. Ég hef svo sem ekki mikla trú á að kjötgæði komi til með að aukast hér á bæ í framhaldi af þessari ræktun en andleg lífsgæði munu aukast til mikilla muna að ógleymdri fagurfræðinni sem kemur í ljós við fyrsta afkvæmi.
Sauðslegt gáfnafar mun rjúka upp og létta lund svo um munar enda verður heimasmölun leikur einn þegar ræktunin fer að bera árangur.
Bara svo að það sé á hreinu þá er Pálína heimakær, heiðursforustukind sem að hrellir aldrei smala að óþörfu og þjálfar því ekki upp aukin smalagæði í öðrum sveitum.
Pálína er stórbrotinn leiðtogi sem að hvaða stjórnmálaflokkur sem er mundi vera stoltur af.
Afkvæmið verður sem sé óaðfinnanlegt.



Eins og góðum forustugrip sæmir þá er hrússi greindur, spakur og skemmtilegur í húsi. Þarna heilsast þeir félagarnir............að sjálfögðu með handabandi.



Þarna er gimbur sem sannarlega er athyggli verð spurning um að fá ,,afleggjara,, við tækifæri?
Já það var gaman að heimsækja þá Þurrstaðabændur og skoða bústofnin, verst að ég mátti ekki birta myndina sem að ég tók af þeim hér á netinu............hún var samt bara nokkuð góð.



.............eða hvað finnst ykkur???????  Bara assskoti myndarlegir kallarnir.

Nú er bara að bíða eftir Jonna talningamanni og vita hver staðan er á forusturæktuninni.

07.03.2011 21:34

Bolla bolla

Veðrið var í full miklu aðalhlutverki á ís-landsmótinu á Svínavatni um helgina en þrátt fyrir það sá ég mörg frábær hross.
Við Ámundi Sigurðsson fórum norður til að dæma fjölda hrossa sem skráð voru til leiks.
Já það gekk á með slæmum éljum og hvassviðri á meðan keppnin fór fram en þarna voru hraustir knapar og hörkuhross sem að komust í gegnum þetta með hörkunni.
Margir gripir heilluðu og var gæðingurinn Ögri frá Hólum valinn glæsilegasti hesturinn, hann sigraði einnig B flokkinn með knapa sinn Sölva Sigurðarson. Í öðru sæti var Blær frá Hesti og Tryggvi Björnsson, þriðja sæti var Dalur frá Háleggsstöðum og Barbara Wenzl. Einni kommu neðar var svo Hríma frá Þjóðólfshaga og Sigurður Sigurðarson.
Sigurvegarí í A flokki var Seyðir frá Hafsteinsstöðum og Þórarinn Eymundsson, öðru sæti var Heljar frá Hemlu og Vignir Siggeirsson, þriðja sæti var svo Tristan frá Árgerði og Stefán Birgir.
Stöllurnar Jódís frá Ferjubakka og Hulda Finnsdóttir sigruðu svo töltið og í öðru sæti var Díva frá Álfhólum og Sara Ástþórsdóttir, þriðja sæti var Blæja frá Lýtingsstöðum og Sigurður Sigurðarson.
Ekki spillti fyrir að við dómararnir fengum góða ferðafélaga með okkur norður og að sjálfsögðu til baka.
Takk fyrir daginn þetta var skemmtilegt.

Dagurinn í dag hafði uppá ýmislegt að bjóða auk venjulegs amsturs svo sem bollubakstur sem heppnaðist með ágætum. Á morgun er það svo saltkjöt og baunir samkvæmt venju.
Ekki dugði til að fjölmiðlarnir hefðu ofurlaun bankastjóra til umræðu í dag svo að þeir mundu sleppa við að tyggja gömlu tugguna um að óvíst væri hvort að þjóðin lifði bollu og saltkjötsátið af. Ótrúlegt hvað þetta er alltaf fréttnæmt að þeirra mati spurning hvort að þeir séu ekki markvisst forritaðir? Sem sagt eins og ,,eitt stórt samsæri,, 
 Allavega er með ólíkindum að þessi tugga gleymist aldrei.
Ég hef hugsað mér að borða bæði saltkjöt og baunir með bestu list og verða örugglega vel af.

Nú styttist í að við förum að kíkja í ,,kindajólapakkana,, sem sagt að sónarskoða kindurnar og telja í þeim væntanleg lömb. Jonni norðmaður fer að mæta til okkar eins og nokkur undanfarin ár og upplýsa hvað séu mörg lömb í vændum. Bara spennandi.
Aftekning er líka handan við hornið enda ekki í boði fyrir rolludömurnar að fara ósnyrtar í sónarinn.

Myndavélaleti húsfreyjunnar er ófyrirgefanleg og rétt að fara úthugsa viðurlög ef að þetta fer ekki að lagast.

Að lokum..............væri ekki sniðugt að skrifa í gestabókina bara svona uppá grín???


04.03.2011 22:48

Ör fréttir

Góður dagur í hesthúsinu vorblíða og skemmtilegheit, mikið riðið út og að lokum tekinn smá rekstur. Hestarnir kátir og flestir að verða skemmtilegri með hverjum deginum.
Útigangshrossin sóluðu sig, löggðu sig svolítið í rúllurnar og nutu lifsins í góða veðrinu.
Á svona dögum á húsfreyjan að sjálfsögðu að drífa myndavélina með í hesthúsið en það vill gleymast.
Hestur dagsins var Nótt frá Lambastöðum.

Ég setti inn nokkra nýja tengla hér á síðuna sem að ég hvet ykkur til að skoða t.d www.stodhestar.com og nýji kynningavefur Félagshrossabænda www.icehorse-experience.is/  þeim tengli deilum við sem allra víðast.

Á morgun eru það svo dómstörf  sem að ég segji ykkur nánar af síðar.

02.03.2011 12:16

Hóladrengir og ýmislegt fleira



Sparisjóður frá Hallkelsstaðahlíð og Mummi að leika sér í blíðunni á Hólum.



Mér sýnist þeim bara semja þokkalega strákunum.



Ég væri nú að plata ef ég segðist ekki sakna Sjóðsins jafnvel þó að ég sé núna með tvo bræður hans í þjálfun og litla bróðurinn í dekri. Sumir eru bara skemmtilegri en aðrir.

Mummi kom heim í helgarfrí um síðustu helgi og þá rændi ég þessum myndum af þeim köppum. Vonandi fæ ég svo fljóttlega myndir af fleiri hrossum sem að Mummi er með í þjálfun á Hólum. Þegar Mummi kemur heim er hann gripinn í hörku reiðkennslu því auðvitað þurfum við að fylgjast með hvað er nýtt á döfinni hjá Hólanemendum.
Þetta er ekki bara frekja og tilætlunnarsemi heldur fær hann líka gott tækifæri til að æfa sig að  kenna ,,góðum,, nemendum
:) ...........eða ???



  • 1