11.04.2021 21:01
Þessi fallegi dagur og sauðburður hafinn.
Þeir hafa verið margir dýrðardagarnir hér í Hlíðinni síðustu vikurnar.
Boðið hefur verið uppá blíðu, fegurð og frið sem endurnærir sál og líkama.
Það er erfitt að vera geðvondur og pirraður í svona veðri og á svona stað.
Enda ekki ástæða til því að við höfum það bara fínt og erum því hress og kát í sveitinni eins og ævinlega.
Allt gegnur sinn vana gang sem er kostur en gestir og ferðamenn eru færri en oftast áður.
Það hefur ekki oft gerst að vatnið hafi verið orðið autt en lagt aftur í apríl. Það gerðist nú í vikunni enda kom nokkuð snarpur hvellur með snjó og síðan roki. Síðustu dagar hafa samt verið eins og alvöru vor væri komið og boðið uppá blíðu af bestu gerð. |
Þverfellið skartaði sínu fegursta og speglaði sig í vatninu rétt eins og það væri að punta sig.
|
Sauðburður hófst formlega þann 9 apríl þegar hún Glaðasvört bar fallegri grárri gimbur.
Það verður þó að segjast að sauðburðurinn byrjaði með basli sem endaði þó vel.
Lambið sen nú hefur fengið nafnið Hnáta var mjög stórt og kom ekki alveg rétt að þannig að aðstoðar var þörf.
Enginn af okkur var komin í neina þjálfun fyrir burðarhjálp og ekki einu sinni farin að undirbúa sig andlega fyrir burð.
Það var því ekki um annað að ræða en ,,fjölmenna,, og setja sig í gírinn fyrir komandi átök.
Gættum þó að því að virða fjöldatakmörk enda ábúendur innan þeirra marka.
Hjúkrunarfræðingurinn á bænum sló okkur öllum við og bjargaði lambinu með glæsibrag.
Já svona byrjar sauðburðurinn þetta árið.
Einlemba sem þarf aðstoð en í fyrra var það fjórlemba sem skuttlaði þeim öllum í heiminn með miklum hvelli.
Hlé verður nú á fjörinu fram í maí svo að við höfum tíma til að hugsa okkar ráð.
Annars er það að frétta af frjósemi að hún er alveg fullkomlega næg þetta árið.
Spennandi sauðburður framundan og alveg ljóst nóg verður að gera þegar líður á maí.