15.05.2019 00:32
Sauðburður og vorið.
Þessa dagana er sauðburðurinn í hámarki og lífið snýst að mestu leiti um kindur og aftur kindur.
Vaktaskiptin ganga vel og sauðburðarljótan er ennþá nokkuð ásættanleg. Verð þó að játa að ekki yngjast nú bændur og búalið á þessum árstíma nema sko í sálinni.
Þetta er svo sannarlega tíminn sem sálin nærist hvað mest, gott veður, fagur fuglasöngur og glaðsinna ungviði allt um kring. Stundum vildi ég bara geta sofið seinna.
Hér eru bændur flestir fullklæddir.............. ennþá en hver veit hvað það verður lengi ?
Þeir Húnversku gáfu tóninn svo að nú er betra að berja að dyrum ef að maður brunar af bæ. Maður veit aldrei hverju skemmtilegur sauðfjárbóndi tekur uppá.
Á myndinni hér fyrir ofan eru voða sætir gemlings tvílembingar sem þurfa ekkert á berum bónda að halda.
Upprennandi heiðurskindin Tálkna var alveg til í að pósa smá. Mér finnst kindur með stóran persónuleika skemmtilegar og þannig er hún Tálkna klárlega.
|
Svona rétt eins og systir hennar sem að gerðist svo forhert að smella sér bara uppí gjafagrindina þegar plássið við hana var óásættanlegt.
Sko að hennar mati...........
Mógolsa varð líka að vera með enda ber hún einn úrvalslitinn sem íslenska sauðkindin býður uppá.
Hún Sína okkar er hér að kveðja kindina sína hana Krögu sem farin er í sumarfrí. Þær eru í uppáhaldi hver hjá annari. |
Við fengum úrvals aðstoðarfólk eins og svo oft áður.
Hér er Sveinbjörn með hressum dömum á fjárhúsvaktinni.
Já það er eins gott fyrir kappann að vera til friðs með þessa hersveit á kanntinum.
Sigurður nágranni kom og leit við í fjárhúsunum á leiðinni í kaffi til Svenna.
Þarna taka þeir stöðuna á jötubandinu.
Þessi mynd er tekin þegar vösk sveit var að hefjast handa við að gera aðstöðu fyrir óbornar ær inná gamla reiðsvæðinu í hlöðunni.
Þangað voru svo færðar rúmlega 300 ær sem hafa beðið á legudeildinni eftir að fá pláss á sér stofu þegar lömbin er komin í heiminn.
Þessi eru voða dugleg, já og ekki bara í símanum sko................
Snillingar bæði tvö þessar elskur.
Þessar dömur eru heldur betur liðtækar í fjörinu þarna eru þær að fara yfir lambamatarræðið.
Þó svo að sauðburður taki tíma er ýmislegt annað sem gera þarf í sveitinni á þessum árstíma.
Þarna eru Hrannar og Mummi að kanna stöðuna í haughúsinu en nú er áburðurinn kominn á þónokkur tún og skíturinn líka.
Sennilega hefur aldrei verið komið svona mikið gras á þessum árstíma hér í Hlíðinni.
Fyrstu lömbin mörkuð út í gær og ekki annað að sjá en það væri fullkomlega tímabært.
Já fyrstu gemlingarnir bæði einlemdir og tvílemdir fóru útá Steinholt í dag og spari kindurnar veturgömlu hrútarnir á túnið inní hlíð.