02.01.2018 21:26

Gleðilegt ár 2018.

 

Um áramót er góður tími til að líta um öxl og skoða hvað liðið ár hafði uppá að bjóða.

Hér hjá okkur í Hlíðinni er óhætt að segja að árið 2017 hafi verið ár framkvæmda.

Við höfðum um nokkurt skeið verið að hugleiða breytingar og aukin umsvif sem svo urðu að veruleika á árinu.

Á ísköldum föstudegi þeim 12 af maí tókum við fyrstu skóflustunguna fyrir nýrri reiðhöll af stærðinni 20x45 m2

Húsið er stálgrindarhús frá H.Haukssyni einangrað og klætt að innan.

Vonandi náum við að byggja tengibyggingu á milli hesthúss og reiðhallar þegar vorar.

 

Ég hef haldið dagbækur frá því árið 1992 og hafa þær gjarnan boðið uppá málshátt fyrir hvern dag.

Þann 12 maí var hann svona ,, Betra er að slitna af brúkun en að eyðast af ryði,,

Það var því sjálfgefið að hefjast handa og vaða í verkið og nú rúmlega 7 mánuðum seinna er reiðhöllin komin.

Þess ber sérstaklega að geta að það voru ekki verktakar eða vinnuflokkar að vinna verkið.

Ónei það höfum við hér í Hlíðinni gert með dyggri og ómetnalegri aðstoð fjölskyldu, sveitunga og annara vina.

Feðgarnir hafa fegnið heldur betur útrás fyrir smiðinn í sér síðustu mánuðina og verða örugglega með frákvörf þegar þessu er lokið.

Já það hef ég marg oft sagt að við eigum dásamlega fjölskyldur og vini, svo búum við í frábæru samfélagi hér í sveitinni. 

Takk fyrir hjálpina kæru vinir þið vitið hver þið eruð.

 

Allt þetta byggingastúss hefur tekið mikinn tíma sérstaklega þegar við höfum verið að temja, heyja, smala og sitthvað fleira sem gera þarf.

Það eru mörg handtökin þegar svona framkvæmdir standa yfir hvort sem það er í byggingunni, pappírsvinnunni nú eða bara í eldhúsinu.

Stóru pottarnir hafa alveg fengið að njóta sín og húsfreyjan á köflum ekki verið viss hvort hún var Strúna Sætran eða Rúnsa Fel.

Ja eða bara kerlingin í fjöllunum.

 

Við erum einnig að leggja loka hönd á tvö sumarhús sem staðsett verða á Steinholtinu hjá okkur. Með tilkomu þeirra getum við boðið uppá gistingu fyrir fólk sem kemur í reiðkennslu, hestaferðir, veiði eða bara til að njóta með okkur hér í Hlíðinni.

Frostið er aðeins að stríða okkur þannig að við þurfum að bíða með að taka þau í notkun þar sem jaðvinna er erfið um þessar mundir.

Þið fáið örugglega að frétta af því hér á síðunni þegar húsin verða komin í gangið.

Já það er bara hugur í okkur og vonandi verður þetta skref okkar til góðs fyrir okkur og samfélagið hér í sveitinni.

 

Við erum alltaf að auka við okkur í ferðþjónustunni og í sumar tókum við á móti nokkrum hestahópum og að auki all nokkrum gestum tengdum hestamennsku.

Veiðin í Hlíðarvatni var líka góð og oft margt um manninn bæði við veiðar og eins á tjaldstæðunum hjá okkur.

 

Annars gekk búskapurinn sá hefðbundni bara nokkuð vel ef frá er talið dapurt afurðaverð sauðfjárafurða sem auðvita hefur heilmikil áhrif.

Við höfum samt valið að hampa bjartsýninni og trúa því að þetta sé bara ein helv... brekkan sem að bændur þurfi að puða upp.

Það kemur að því að við sem stundum sauðfjárbúskap verðum metin af verðleikum, sannið þið til.

Ég gæti fjölyrt lengi um einstakar uppáhalds ær og gersemis gemlinga en hlífi ykkur við þvi.

Get þó sagt að það er oftast gaman að vera sauðfjárbóndi og sumar stundir í þeim geira eru óviðjafnanlegar.

Sauðburður, fjallaferðir og réttir.............. að ógleymdu réttarpartýinu já og fólkinu, maður fólkið það er dásamlegt.

Eitt er samt áhyggjuefnið umfram annað í sauðfjárbúskapnum en það er ósamstaða bændanna sjálfra á landsvísu þegar kemur að félagsmálunum.

Ég hef ekki nokkra trú á því að betur fari fyrir þeim sem í greininni starfa ef að þeir slíta æruna af hvor öðrum sér til dægrastyttingar.

Málefnalega skoðannaskipti eru af hinu góða og farsælast að brúka þau til framtíðar en sleppa hinu.

 

Árið 2016 urðum við fyrir því að missa báðar smalatíkurnar okkar þær Freyju og Möru frá Eysteinseyri eins og fram kom í síðasta áramóta pistli. Það var því heldur lágt risið á smölunum hvað hundaeign varðaði framan af árinu. Snotra mín íslendingur stendur svo sem alltaf fyrir sínu sem eðal heimilishundur og Ófeigur ofurhundur líka en það vantaði alvöru smalahund. Sko með fullri virðingu fyrir þeim.

Það var því heldur betur kátt í kotinu þegar hundabóndinn á Eysteinseyri kom færandi hendi með tík úr sama goti og Mara mín. Þar var komin hún Ponsa frá Eysteinseyri sem reynst hefur okkur afar vel.

Við sendum okkar bestu strauma vestur þegar Ponsa léttir okkur sporin við smalamennskurnar.

 

Það verður að játast að byggingastússið tók nú svolítinn tíma frá okkar eigin hrossum á þessu ári. Það gerði það að verkum að lítið var um þátttöku í mótum og sýningum. En það stendur vonandi til bóta og nú er bara að girða sig í brók allir sem einn.

Við fengum nokkur spennandi folöld í vor sem eru lýsandi vonarstjörnu þangað til annað kemur í ljós.

Ég fékk eitt folald eftir að hafa nýtt gjafbréfið frá því að ég varð 25 plús þarna um árið.

Undan Spuna frá Vestukoti og Kolskör minni fékk ég jarpa hryssum sem hlotið hefur nafnið Kolrassa frá Hallkelsstaðahlíð.

Aldeilis spennandi gjöf það.

Síðan fæddist brún hryssa undan Brag frá Ytra Hóli og Rák hún hefur hlotið nafnið Staka. Karún mín gamla átti jarpa hryssu unda Kafteini Ölnirssyni sem hlotið hefur nafnið Krossbrá. Tvö afkvæmi fæddust svo undan honum Káti Auðssyni en það voru Vandséð sem er undan Sjaldséð og Máni sem er undan Snekkju.

Síðast en ekki síst fengum við að halda henni Venus frá Magnússkógum undir hann Arion frá Eystra Fróðholti þar kom rauður hestur sem nefndur hefur verið Sigurmon.

Nokkur hross skiptu um eigendur sum fóru úr landi en önnur fluttu sig um set hér innan lands.

Það er gaman að vita til þess að vel gengur hjá nýjum eigendum með hrossin.

Það vita allir sem í hestastússi standa að það er erfitt að kveðja aldna höfðingja sem lengi hafa þjónað. Við kvöddum tvo snillinga á árinu þá Rík minn frá Reykjarhóli í Fljótum og Örlát Þorrason. Báðir höfðu þeir verið okkur samferða í áratugi og skilja bara eftir sig góða minningar.

Nú kroppa þeir grænt í grænu högunum hinumegin.

 

Mummi fór í sínar reglubundnu kennsluferðir erlendis á árinu þó svo að ferðirnar væru aðeins færri en árið 2016.

Mig minnir að hann hafi farið 10 -15 sinnum út árið 2016.

Samt ansi drjúgar vikur þegar saman er talið. Einnig var hann með nokkur námskeið hér heima á Íslandi.

Já það er ekki bæði hægt að byggja og vera í útlandinu.

Ég var nokkuð iðin við að dæma á hestamótum á árinu og einnig var ég þulur á nokkuð mörgum mótum.

Skemmtileg vinna og gaman að fylgjast með hvað er að gerast í hestamennskunni vitt og breitt um landið.

Við smelltum okkur líka á Heimsmeistarmótið í hestaíþróttum sem haldið var í Hollandi. Það var aldeilis frábær ferð með skemmtilegum ferðafélögum. Ekki skemmdi fyrir hvað vestlendingar stóðu sig vel á keppnisbrautinni og jaðraði það við þjóðernishyggju að tíunda það.

Við erum jú vestlendingar og bara nokkuð ánægð með það.

 

Eins og undanfarin ár höfum við tekið á móti verknemum víða að og einnig verið með ungt fólk okkur til aðstoðar.

Það er hreint ótrúlegt hvað við erum alltaf heppin með þetta fólk, dásamlegir krakkar sem gera lífið hér í Hlíðinni bara betra.

Þetta sumarið vorum við t.d með fjóra aðila sem allir höfðu verið hjá okkur áður, því líkur munaður.

Já sum happadrætti eru hvorki Háskólans né Das.................

 

Áramótin eru alltaf merkileg upphaf og endir.

Við áttum góð jól og áramót þar sem fólk í því efra og hér í því neðra áttum góðar stundir með frændfólki úr bænum.

Gamlar hefðir í heiðri hafðar í bland við nýjungar sem verða kannski hefðir eftir stuttan tíma.

Ungir og gamlir safna saman dýrmætum minningum sem batna bara þegar fram líða stundir.

Það að standast tímans tönn er verðugt verkefni og ekki sjálgefið að það takist.

En það er sjálfsagt að reyna.

 

Um síðustu áramót skrifaði ég  ,,Það er því með tilhlökkun, framsýni og gleði sem við tökum á móti nýju ári,,

Það var einmitt það sem við gerðum og ég trúi því að það hafi gert okkur gott.

 

Jákvæð hugsun, virðing, auðmýkt og gleði er fínasti koktell fyrir komandi ár.

Svo má krydda með aga, dugnaði og húmor.

 

 

Kæru vinir !

Við óskum ykkur farsældar, friðs og góðrar heilsu á nýju ári með kæru þakklæti fyrir það liðna.

Það verður gaman að eiga samleið með ykkur inní nýtt ár.

Með bros á vör og gleði í hjarta sendum við ykkur góða strauma.

Bestu kveðjur frá okkur öllum í Hlíðinni.