15.10.2017 22:07
Nú er kátt í Hlíðinni.
Sunnudagurinn 15 október rann upp rétt eins og allir aðrir dagar en hér í Hlíðinni var spenna í loftinu. Þetta var dagurinn sem reiðhöllin yrði reist og því mikið undir að allt gengi upp. Smiðirnir höfðu sofnað með millimetra á raddböndunum en vöknuðu upp með andfælum eftir draumfarir sem skiptu tugum sentimetra. Já það var spennandi að sjá hvort að húsið yfir höfuð mundi passa á grunninn. Ekki mátti á milli sjá hver var spenntastur, húsasmíðameistarinn ( Skúli) , húsasmiðurinn ( Mummi) nú eða húsasmiðurinn á fyrsta ári (ég). Við höfðum frábært aðstoðarfólk með okkur sem m.a sá um hífingar, lyftingar, handlang, skítmokstur, eldamennsku já og margt fleira. Árni Jón mætti með kranabílinn en við hans fyrirtæki Þorgeir ehf höfum við verslað steypuna í grunninn. Frábær þjónusta svo ekki sé meira sagt. Gestur á Kaldárbakka kom með skotbómulyftarann sem var heldur betur þarfa þing í þessu fjöri. Eins og meðfylgjandi myndir sýna tókst dagsverkið með miklum ágætum og tók í raun miklu styttri tíma en við þorðum að vona. Fyrsta sperra fór í loftið klukkan hálf ellefu (mjög viðeigandi í hálfellefuhreppnum) og sú síðasta var komin á sinn stað rúmlega hálf fjögur. Neðst á sperrunum eru plattar með götum sem þurfa nauðsynlega að passa við boltana sem steyptir voru fastir á grunninn. Þarna erum við að tala um millimetramál. En eins og villtustu draumar gerðu ráð fyrir þá smell passaði hver einasta sperra við boltana góðu. Já þeir eru bara asssskoti góðir á tommustoknum drengirnir, sennilega sofa þeir vært í nótt. Myndirnar sem koma hér á eftir eru ekki í tímaröð enda var tíminn naumur sem ætlaður var í að koma þeim hingað inn.
|
||||||||||||||||||||||||||||||||||||