06.03.2017 00:15
Besti vinur hestakonunnar.
Ég fæ stundum skemmtilega pósta sem tengjast blogginu hér á síðunni og fyrir stuttu barst einmitt einn slíkur. Það var einn dyggur lesandi að kvarta yfir því að það þyrfti að vera meiri fjölbreytni í skrifunum. Hann vildi meina að áhugi minn á hrossum, kindum og fallegu landslagi væri til vandræða. Það hlýtur að vera eitthvað annað að gerast hjá ykkur sem fréttnæmt gætur talist skrifaði hann pirraður. Ég hef því ákveðið að deila með ykkur skemmtilegu verkefni sem unnið var í síðustu viku. Hér á meðfylgjandi mynd sjáið þið uppáhalds verkfæri bóndans og uppteknu hestakonunnar. Já ekkert svona ......................... þetta er ekki dónaleg saga.
Ég framkvæmdi snildar hugmynd sem ég fékk en kannski hafa margir framkvæmt hana áður. Mér fannst hún samt góð og hún bjargaði heilmiklu af annars frábærum góðviðrisdegi. Það er órúfanleg hefð að elda saltkjöt og baunir á sprengidaginn hér í Hlíðinni og sú hefð var einnig í hávegum höfð þetta árið. Veðrið var einstaklega gott og sérstaklega hart í baununum þennan daginn. Sem var alveg skelfilegt þar sem að húsfreyjan vildi mikið frekar vera að ríða út en að hræra í pottum. Það varð því einskonar hugljómun þegar ég á tilgangslausri yfirferð um eldhússkápana rakst á töfrasprotann góða. Ýmislegt hefur nú þurft að láta undan honum þegar mikið hefur legið við eins og einmitt þarna. Ég lagði til atlögu við grjótharðar baunir sem þó höfðu flatmagað í vatni heila nótt og rúmlega það. Til að gera langa sögu stutta þá breyttust baunirnar í dásamlega baunasúpur á einu augabragði.
|
||||||