13.05.2016 14:03
|
Þessi fallegi dagur.
Sauðburðarljótan vex hraðar en fylgji nokkurs forsetaframbjóðanda svo það var ekki val um sjálfsmynd hér í upphafi frétta.
Sauðburður er kominn á fulla ferð og sennilega um helmingur borinn þegar þetta er skrifað. Ég hafði háleit markmið um að setja hér inn fréttir daglega en tíminn sem vantar í sólarhringinn var ákkúrat sá tími. Við fengum lömb undan öllu þeim hrútum sem að við notuðum í sæðingunum í vetur. Mörg falleg sæðingslömb fæddust þetta árið m.a undan Kornilíusi, Salamon, Roða og fl.
Fyrstu lömbin voru sett út í gær og fullorðnir hrútar standa nú í rúllu og njóta lífsins áhyggjulausir um sauðburð.
Þeir komast sennilega ekki í félag ábyrgra feðra því einhvern veginn finnst mér þeim vera slétt sama um allt nema desemberfjörið.
|
Burðurinn hefur gengið vel en alltaf kemur eitthvað upp sem þarfnast natni og samviskusemi til að allt gangi upp.
Þarna eru Maron og Snotra að sinna nýfæddum og nota til þess afmælisgjöfina frá Þóru sem kom að góðum notum.
|
Garðarbæjar Golsa og Petrína taka því rólega og bíða eftir því að vinir þeirra úr höfuðborinni mæti á svæðið.
|
Þoka gamla er hinsvegar orðin frekar þreytt á biðinni eftir lömbunum þremur og er ekki líkleg til langhlaupa eins og er.
|
Rellu Rafts er líka farið að lengja eftir sumri og sól með minkandi bumbu.
|
Prinsessa biður fyrir kveðjur í danska herinn þar sem að eigandi hennar bíður eftir fréttum af lömbum.
|
Þarna er hún Majbritt með litla mógolsu sem er algjört krútt. Það er búið að vera ansi líflegt í fjárhúsunum og mikið að gera.
Krakkarnir þau Majbritt og Maron hafa staðið sig með mikilli prýði og eru frábærir ,,rollubændur,,
|
|
Geldir gemlingar stunda sjálftöku og viðhafa nokkuð góða ,,borðsiði,, við það.
Húsfreyjan er klár með markatöngina í vasanum og nú verður eitthvað að skoða veðurblíðuna í dag.
Njótið dagsins, ég hef fulla trú á að föstudagurinn 13 sé málið.
|
|
|
|
|
|
|
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir