21.03.2016 22:37
Skeiðsigrar og afmælistamningar
|
Fannar og Mummi gerðu góða ferð í Borgarnes þegar þeir tóku þátt í KBmótaröðinni fyrir stuttu. Þ.e.a.s þegar keppt var í flugskeiði í gegnum höllina. Þeir félagarnir sigruðu þá keppni og á meðfylgjandi mynd eru þeir að vega og meta verðlaunagripinn. Mummi fór einnig með Gangskör sem endaði í 5 sæti í tölt. Það er líflegt hér í Hlíðinni eins og svo sem alltaf. Góða vinnufólkið okkar stendur sig með mikilli prýði og um þessar mundir erum við svo heppin að vera með verknema frá Danmörku. Og svo er hún Beký okkar í heimsókn líka en hún var einu sinni að vinna hjá okkur í Hlíðinni. Já mikið fjör og mikið hlegið hér á bæ. Góða veðrið er alltaf skemmtilegt og sennilega fær maður aldrei nóg af því. Það er verst hvað maður ætlar alltaf að gera mikið þegar það stendur. En með aldri og þroska venst maður því að ekki er endilega víst að alltaf hafist af. Við Mara sparitík ætlum að gefa í og vera sérlega duglegar að læra til smala-ofurhunds í apríl. Mara er frá Marinó og Freyju bændum á Eysteinseyri við Tálknafjörð. Sennilega er best að námið hjá okkur hér heima hefjist 1 apríl. Þetta verður eins og þegar snillingar hefjast handa við að læra til prests. Við munum leggja hart að okkur við námið en svo kemur í ljós hvort við fáum ,,brauð,, eða förum bara að harka í einhverri annari atvinnugrein. Ferðaþjónustan kemur sterk inn ef ekkert gengur í bransanum. Við gætu kannski passað uppá að norðuljósafarar færu sér ekki að voða. Ferðamannaforráðar væri kannski eitthvað fyrir okkur Möru ? En ég átti alltaf eftir að segja ykkur frá því að þegar húsfreyjan varð 50 ára (sem hefur bara gerst einu sinni) fékk hún margar skemmtilegar gjafir. Þar á meðal var gjöf frá Svani og Höllu í Dalsmynni sem sagt tamningatímar á Möru. Mér þótti afar vænt um þessa gjöf þar sem ég ákvað að túlka hana þannig að Svanur hefði allavega trú á annari hvorri okkar. Það var svo einn fagran dag sem ég mætti með Möru mína til Svans. Þar sem húsfreyjan var ný orðin fimmtug og reynslunni ríkar fór hún betur með spenninginn en Mara. Hún hafði frekar litla reynslu af bílferðum og nýjum bæjum. Kom reyndar í pappakassa frá Eysteinseyri en það var sennilega grafið og gleymt. Þegar Mara kom útúr bílnum á hlaðinu í Dalsmynni réði hún sér vart fyrir fögnuði og forvitni. Hún sem er róleg, ljúf og meðfærileg heima fyrir breyttist skyndilega í ofvirkan krakka sem aldrei hefur heyrt um Rídalín. Það var eins gott að bleika hálsólin sem keypt var í KS fyrir margt löngu var sterk. Ekki var síður heppilegt að pundið í húsfreyjunni vegur svolítið og því varð skoðunarferðin um Dalsmynnisland heldur styttri en Mara hefði kosið. Eftir örskoðun á smalahólfi og sauðfé var Möru boðin gisting á fína hundaóðalinu hans Svans. Húsfreyjan drakk kaffi og brunaði síðan heim með krosslagða fingur og von í brjósti um þokkalega hegðun Möru. Þegar liðið var vel á aðra viku var tímabært að sækja gripinn. Við útskrif var auðvitað farið með Möru í kindur til að sýna hvernig staðan væri á henni. Ekki var annað að sjá en þeim Svani og Möru hefði samið þokkalega enda var það fyrir mestu. Eins og á alvöru tamningastöðum er mikið um að vera og þegar Svanur og Mara höfðu sýnt hvað í þeim bjó var næsti hundur kominn á hliðarlínuna. Var því ekkert að vandbúnaði að leggja af stað heim með gripinn. Þá var bara að smella kossi á hundatemjarann og halda heim frekar hressar í bragði............. báðar tvær. Nú er það bara okkar Möru að finna út á hvorri hann hafi trúnna........... Verkefni fram undan er hinsvegar að venja saman tík og húsfreyju með það að markmiði að þær verði nothæfar til smalamennsku. Geldu gemlingarnir eru vonandi til reiðu eins og til var ætlast. Góðar stundir. |