14.09.2014 23:29

Góður dagur

 

Það var hvasst í morgun og ekkert ferðaveður fyrir gæðinga á kerru því var skipulaginu breytt í snarhasti. Dagurinn átti að byrja með hrossaflutningum og fleiru.

Hryssan bíður eftir blíðunni sem á að vera þegar hún fer frá okkur og heim til sín.

En í staðinn urðu til nokkrar formkökur sem verða á boðstólnum um réttirnar og aðhaldsgirðingin kláraðist. Til að fyrirbyggja allan misskilning þá er þessi aðhaldsgirðing alvöru girðing fyrir kindur.

Eftir hádegið var svo brunað inná Skógarströnd en þar voru bændur á Emmubergi að hefja sína smalatörn. Eins og undanfarin ár förum við og sækjum féð sem þangað kemur héðan úr Kolbeinsstaðahreppnum. Þetta er gert til að auðvelda bæði okkur skilamönnum í Vörðufellsrétt og Bergsbændum ragið. Það er jú alveg nóg að draga hverja kind einu sinni.

Andrés og Björgvin Ystu-Garðabræður komu líka með og var góður hópur fluttur suður fyrir.

Það er alltaf viss stemming sem skapast þegar fyrstu kindurnar koma heim.

Þá er spáð og spekulegrað flett fram og til baka í rollubókunum og rífjað upp hver átti hvaða lamb og hvernig það var.

Já rollukellingar eru spes og ekki síður kallar.

Á morgun er það svo að gera skil í Skarðsrétt þangað höfum við ekki sent skilamann fyrr.

Gaman að fara á nýjar slóðir, nánar um það síðar.