13.09.2014 22:30

Vikan sem allt er að gerast

 

 

Þessi öðlingur hefur það gott fyrir utan eldhúsgluggann enda ekki annað hægt í svona blíðu. Sumarhiti og logn sem manni langar til að nota í allt mögulegt.

Núna fer ein líflegasta vika ársins í hönd þar sem allt skal gert................

Eins og kom fram hér neðar á síðunni er komið skipulag fyrir leitir og réttir sem enn er verið að fín pússa. Skipulagasveikin heltók húsfreyjuna fyrir stuttu og í því kasti varð til langur listi sem æskilegt er að klára fyrir réttir. Enda eru allir á góðum snúningi.

Yfirfara fjárhúsin, laga og bera ofaní réttina, girða ,,aðhaldsgirðinguna, fara með túngirðingunni, hreinsa uppúr skurðum, gera víggirðingu kringum rúllurnar og ýmislegt fleira. Þetta var bara fyrrihlutinn...... seinni hlutinn var einhvern veginn svona: Telja saman smalana, finna talstöðvarnar, baka (ekki bara vandræði) , taka upp kartöflur, skipuleggja nesti, horfa á matseðilinn og klappa regngöllunum. Já það er sko mikilvægt ég hef fulla trú á því að ef gallinn er hreinn, vís og klár þá séu minni líkur á að það rigni. Svo þarf líka að kanna járningar, fjórhjólið og litaspreyið.

Og smalavestin auðvitað, enginn má nú týnast í fjöllunum.

Annars var tekin smá æfing um síðustu helgi þegar við tókum þátt í smalamennsku og fjárragi með Skáneyjarbændum. Það er alltaf gaman að fara á nýjar slóðir að smala. Ég sá Reykholtsdalinn og Hvítársíðuna frá nýju sjónarhorni og ekki skemmdi nú fyrir hvað veðráttan var góð. Það var líka gaman að skoða féð og fylgjast með þegar verði var að velja sláturlömbin. Smá hluti af fjárstofninum er ættaður frá okkur og var gaman að sjá hvernig það blandast við hópinn. Það er alltaf gott að fá fimmstjörnu dekur hjá Skáneyjarbændum hvort sem það er á námskeiðum eða í leitunum.

Á þessum árstíma gluggar maður gjarnan í markaskrá af gömlum vana enda er ég alin upp við það að telja markaskrár til gæða bókmennta. Nú orðið eru flestir sem draga sundur fé eftir bæjanúmerum en það er samt ákveðinn sjarmi yfir því að spreyta sig á mörkunum. Þegar ég var barn gerði ég mér það að leik að marka bréfeyru. Utan um Tímann kom bréf sem Lóa frænka mín klippti niður og bjó til eyru, þessi eyru ,,markaði,, ég svo með skærum. Ég horfði á frændur mína marka og tók upp sömu taktana og þeir höfðu við verkið. Það var alltaf sjálfsagt að læra svolítið af nýjum mörkum á hverju hausti.

Man sérstaklega eftir því þegar að ég lærið mark sem eignað var þeim í vonda í neðra. Það var þrírifað í þrístíf og þrettán rifur í hvatt.

Sennilega mundi MAST gera einhverjar athugasemdir við þetta mark í dag.................

Já þau hafa ekki alltaf verið hefðbundin áhugamálin mín.