04.06.2014 09:00

Af refum, kosningum, Spuna og lífinu í Hlíðinni

 
 

 

Það er bannað að taka morgungöngu innan um lambféð með skipulagða árás í huga. Þessi rebbi fékk svo sannarlega að reyna það og tríttlar nú um í grænu högunum hinumegin. Svona fyrir þá sem hugsanlega eru viðkvæmir fyrir myndum af þessu tagi. Fáið ykkur sæti lokið augunum og hugsið ykkur að launaumslagið ykkar sé fullt en skyndilega kemur refur og byrjar að borða alla fimmþúsundkallana. Já já það eyðist sem af er tekið.

 

 

Gamla refaskyttan var ánægð með veiði tamningamannsins sem verður sennilega að rifja upp kúrekataktana og vera búinn hatti og byssu í morgunreiðtúrnum. Vopnið sem notað var er riffill sem áður var í eigu Gústavs heitins Gústavssonar sem var refaskytta hér fyrir nokkrum áratugum. Hann var í miklu sambandi hingað vestur og beið þess með óþreyju að skotin yrði tófa með byssunni. Hann náði ekki að lifa það en hann lést fyrir nokkrum vikum. Ég hef samt fulla trú á að hann hafi fylgst með og fagni nú á öðrum stöðum að rebbi valsi ekki hér um meir. Mummi skaut rebba fyrir ofan Þrepin sem kölluð eru, svona fyrir þá sem til þekkja.

 

 

Þarna er hún Marie að skoða rebba enda ekki á hverjum degi sem að hægt er að skoða þá í svona miklu návígi.

 

 

Þessi létu sér fátt um finnast þegar það rigndi sem mest í gær og fengu sér bara blund á hestasteininum fyrir utan eldhúsgluggann. Það er alveg spurning hvort að lömbin séu að finna tilfinninguna hvernig það er að búa í blokk ? Þetta er hestasteinn sérvalinn úr Tálknafirði sem aldrei er kallaður annað en Marinó.

 

 

Frá refaveiðum að kosningum, kella var ánægð með útkomu sinna manna í Borgarbyggð. Svo að það er bara góð viðbót við annars gott vor með blíðu, grasi og vonandi gæfu. Sauðburðurinn er að verða búinn en síðustu kindurnar láta aðeins bíða eftir sér og nokkrar ,,vandræða,, kindur er eftir inni. Þær ættu bara að vita hvað bíður þeirra þegar þær fara út.

Maron vinnumaðurinn okkar fór í smá frí eftir aðal sauðburðartörnina en er væntanlegur fljóttlega.

Þau stóðu sig eins og hetjur nýja sauðburðarfólkið okkar hann og Marie.

Við fengum líka frábæra hjálp frá fullt af góðu fólki sem létti undir með okkur í sauðburðinum enda líflegt þegar hátt í 700 kindur bera og rúmlega 30 hross á járnum. Svo er dásamlegt að fá góðar ,,inni,, konur á þessum tíma sem sjá til þess að veisla er á matmálstímum. Takk fyrir alla hjálpina þið sem eruð okkur svo dýrmæt.

Folaldshryssurnar láta heldur betur bíða eftir sér en ekki er svo mikið sem ein þeirra köstuð.

Þær vita sennilega sem er að miklar vangavelltur eru í gangi varðandi val á stóðhestum og því bara best að taka því rólega.

Reyndar er Astrid búin að fá eitt folald en það er fætt á Skáney, hryssa undan gæðingnum Þyt frá Skáney og Prúð frá Skáney. Hún fór að skoða gripinn og kom alsæl heim enda ekki annað hægt með Þytsdóttir ;)

Ég fór og dæmdi Landsmótsúrtöku hjá Hestamannafélaginu Spretti um síðustu helgi.

Hestakosturinn var afbragðs góður og alveg ljóst að einhverjir fulltrúar Spretts eiga eftir að komast langt á landsmótinu. Spuni frá Vestukoti er mér alveg ógleymanlegur undir stjórn Þórðar Þorgeirssonar á Landsmótinu þegar hann kom fyrst fram. Ekki varð aðdáun mín minni þegar hann mætti til leiks hjá Spretti s.l laugardag, þvílíkur gæðingur og nú undir öruggri stjórn Þórarins Ragnarssonar. Mörg önnur hross eru mér ofarlega í huga og ekki síst hvað börn og unglingar eru glæsilega ríðandi. Ég veðja á að Sprettur komi sterkur inn á LM 2014.

 

 

Litlar frænkur mættu til að skoða sauðburðinn en þarna er Fríða María búin að hitta vinkonu sína hana Marie.

 

 

Fríða eldri skellti sér í sveitina og er þarna með vinkonunum enda er bara heilsusamlegt fyrir dömur á níræðisaldri að koma í fjárhúsin.

 

 

Íris Linda og Botni að taka stöðu mála.

 

 

Þú ert sko flottasta lamb sem ég hef séð.

 

 

................... en ég er nú svolítið smeik við þig þegar þú jarmar svona hátt.

 

 

Svandís Sif og Halldór voru hress í sauðburðarfjörinu.

 

 

Eins gott að líta eftir öllu hjá ykkur................ Svandís Sif efnilega sauðburðarkona.

 

 

Þegar maður verður þreyttur þá er bara að labba með ömmu Svandísi í Stellukaffi í gamla húsið.

 

 

Ragnar frændi minn sem nú býr í Brákarhlíð kom auðvita og skoðaði lömbin og tók stöðuna í sauðburðinum. Það er alveg ótrúlegt hvað hann þekkir og man þegar hann kemur í fjárhúsin. ,, Er þessi með þrjú lömb einu sinni enn og núna botnótt,, eða ,,kemur þessi með annan lífhrút,, Já þeir sem eru einu sinni bændur þeir verða það alltaf. Það er hægt að taka manninn úr sveitinni en ekki sveitina úr manninum. Það er víst.

Á myndinni hér fyrir ofan er Svandís Sif að máta gleraugun og spjalla við Ragnar þegar hún heimsótti hann í Brákarhlíð.

Eins og þið vitið þá hefur ekki gefist mikill tími til að setja inn fréttir og myndir en af nægu er að taka.

Vonandi hefst eitthvað af í þeim efnum á næstunni en nokkur hundruð myndir og annað efni bíða á kanntinum.