19.05.2014 11:54

Mikið um að vera

 

Þessi tvö Astrid okkar og Fannar frá Hallkelsstaðahlíð stóðu sig vel á föstudaginn þegar þau tóku lokaprófið saman á Hólum. Þarna sjást þau setja lokapunktinn með góðum skeiðspretti. Það verður nú gaman að fá þau heim í næstu viku. Til hamingju með þetta bæði tvö.

Sauðburður er enn í fullum gangi þó svo að aðeins hafi hægt á enda mátti það nú alveg. Tæplega 150 kinur eru eftir að bera svo nú fer þetta að fjara út smá saman. Nóttin í nótt var sú kaldasta í langan tíma og ekki laust við að venjulegt sauðburðarveður væri í boði. Við eru orðin svo góðu vön síðustu vikurnar. Ég held samt að ég hafi ekki markað jafn snemma út í jafn mikið gras og þetta vorið. Það var allavega settur sérstakur kraftur í að klára að slóðadraga um helgina og á næstu dögum er það svo áburðurinn á.

Sveinbjörn frændi minn og Sigurður í Hraunholtum voru að rifja upp góð vor og komust að því að 1964 hefði verið gott en þó mun blautara en þetta vorið. Ég gat ekki blandað mér í þá umræðu þar sem ég var enn í húfuskotti Guðs eins og sagt var.

Fylfullu hryssurnar eru komnar á sinn vanalega köstunarstað sem er hólf við gamla bæinn. Þar er auðvellt að fylgjast með þeim allan sólarhringinn. Karún mín kastar alltaf í fyrra fallinu svo nú eru tíðar heimsóknir til hennar. Hún eins og Skúta, Rák og Létt eiga allar von á afkvæmum undan gæðingnum Ölni frá Akranesi. Kolskör er fylfull eftir Hersi frá Lambanesi sem var einmitt að gera það gott í kynbótasýningu í morgun.

Þríhella er með afkvæmi undan Stimpli frá Vatni, Sjaldséð undan Sólon frá Skáney og Blika undan vini mínum Gosa frá Lambastöðum. Bara spennandi tímar framundan á fæðingadeildinni.