02.05.2014 13:46

Kúrekinn í villta vestrinu og smá sauðslegt með.

Þegar ég fór inná fésið í morgun blasti við mér kunnulegur kúreki. Mér fannst við hæfi að fá þessa mynd ,,lánaða,, svona aðallega fyrir ykkur sem hafið verið í vandræðum með að smala saman nautgripunum á haustin. Annars er það helst í fréttum þarna úr Ameríkunni að kúrekinn segir allt gott.

 

 

Það eru hinsvegar nýjar fréttir héðan úr Hlíðinni en í gær bættist við liðsauki í hundasafnið. Já hún Mara litla frá Eysteinseyri kom siglandi yfir Breiðafjörðinn og er hingað komin til að vera. Mara er vonandi upprennandi smalahundur eins og Freyja systir hennar sem tekur miklum framförum í faginu. Fyrst um sinn er samt aðal málið að læra þessa bannsettu ,,mannasiði,, já það er ekkert grín að vera hundur. Mara er sérvalin af sérfræðinum sem tölu nauðsynlegt að velja frekustu tíkina úr gotinu til að hún mundi líkjast nýjum eiganda sem mest. En eins og þið eflaust vitið verður fé jafnan fóstra líkt nú eða eins og í þessu tilviki fóstru líkt. Þetta er sem sagt framtíðar smalahundur húsfreyjunnar. Nei nei Ófeigur og Snotra eru ekki öll en þau hafa tekið að sér mikilvæg sérverkefni. Hann sem heimilishundur með sérstakri áherslu á sauðfjárofnæmi.og rollufælni. Snotra mun sérhæfa sig enn frekar í dekurhundafræðum með sérstakri áherslu á íslenskt gelt. Fyrsta nóttin var nokkuð dramatísk á nýju heimili, mikið vælt og svona til að sína nýju vinkonu sinni fullan stuðnig þá gólaði allt liðið.

 

 

Hún Sýltkolla mín klikkar ekki frekar en venjulega og kom með þessa fínu lambadrottningu í nótt. Ein gimbur var sérpöntun frá húsfreyjunni þar sem að Sýltkolla er komin á eftirlaun og á bara eftir að koma með verðugan arftaka. Þið getið rétt ímyndað ykkur hversu merkileg þessi kind er í huga kellu. Svo að dæmi sé tekið er hér vinnumaður sem hefur verið hér í tvo sólarhringa innan um tæplega sjöhundruð fjár en hann kom og tilkynnti í morgun að Sýltkolla væri borin. Lykilatriði að læra strax að þekkja sparikindurnar.

 

 

Þessar þrjár svörtu gemlingar eru þrílembingar og ótrúlega skemmtilegar. Þær raða sér oft hlið við hlið á jötuna þrátt fyrir að verða með stórum hóp í kró. Þetta er svona systra matarboð.

 

Mókolla á ekki að bera alveg strax en mikið held ég að hún verði fegin þegar þar að kemur. Ætli það verði þrjár mórauðar gimbrar ?

Garðabæjar-Golsa lét sér fátt um finnsta og smellti bara upp myndasvipnum. Það er ekki nóg með að Golsa sé komin að burði heldur á hún von á nokkrum tugum af ,,ömmubörnum,, Sterasynirnir hennar þeir Loðmundur og Elvar voru harðduglegir í jólaverkunum. Eins gott að Garðabæjarliðið fari að láta sjá sig.

 

Jói sauður stundar matvæla rannsóknir og eins og þið sjáið er hann djúpt sokkinn í fræðin.