27.04.2014 22:16
|
Líf og fjör það er málið þessa dagana og því lítið um tíma til að sitja við skriftir og þannig iðju. En ég ætla að smella inn nokkrum myndum og fréttum með þeim. Þarna er hann Kátur minn að synda hjá þeim sundbændum í Ásakoti. Af myndinni má ráða að Kátur sé frekar hneykslaður á þeim þarna á suðurlandinu sem skaffa hvorki kút né kork þegar landkrabbar úr vestlenskum afdölum mæta í sund. En þar sem hann er flugsyndur fór þetta allt saman vel.
|
Þessi drottning var bara nokkuð sátt við að stunda sundíþróttina en þarna sést hún taka fyrstu ferðina.
|
Þessi fallegi gestur kom við hér í Hlíðinni og valdi að dvelja á hlaðinu sem er nú ekkert sérstaklega góður staður fyrir fugla sem hafa það að markmiði að lifa lengi. Hvað heitir nú þessi fugl ?
Er hreint ekki viss og þykir það miður.
Veiðitímabilið er ekki hafið hjá meistara Salmómoni svarta svo þetta sleppur enn um sinn en þann 4 apríl s.l fagnaði hann 15 ára (105 ára) afmæli sínu. Þessu tímamótum fagnaði hann með því að vinna (sko ritarinn hans) að opnun á facebooksíðu sem mun birtast innan tíðar.
Kæru lesendur verið viðbúin vinabeiðni frá þessum snillingi sem á örugglega eitt stæðast sjálfsmyndasafn landsins.
|
Við fengum góða gesti um helgina þar á meðal var Fríða María frænka mín sem þarna sér með nýjustu vinkonu sinni sem heitir líka Marie. Eins og sönnum dömum sæmir var tekinn góður tími til snyrtingar þarna er naglalakkið að þorna.
Það er orðinn góður og skemmtilegur vorboði að vera beðin um að dæma á Miðfossum þegar keppni um Gunnarsbikarinn fer fram hjá nemendum Landbúnaðar háskólans á Hvanneyri. Og ekki er það síður skemmtilegt að dæma keppnina um Reynisbikarinn sem háð er meðal nemenda í Reiðmanninum.
Báðar þessar keppnir fara fram síðasta vetrar dag og á sumardaginn fyrsta.
Hörkukeppni og gaman að sjá hvað allir leggja sig fram um að gera sitt besta. Þetta ár var engin undantekning á því hversu margir góðir hestar og knapar reyndu með sér.
Mummi er staddur í Bandaríkjunum þessa dagana og sendir öðru hverju myndir sem sýna æðislega blíðu. Við hér í Hlíðinni erum sannfærð um að þetta sé lítið á við það sem við höfum upplifað síðustu daga ef frá er dreginn dagurinn í dag. Allavega hafa ekki komið þrumur og eldingar hér í fjöllunum.
Mummi skrapp í heimsókn til hans Gosa vinar okkar sem nú hefur flutt sig um set og þjónar nýjum eigendum í landinu stóra.
Það er gaman að frétta að Gosa líður vel og hefur svo sannalega allt sem hugurinn girnist jafnvel ef ,,maður,, er hestur. Afkvæmin hans sem eru hér í tamningu lofa góðu og halda svo sannarlega minningunum lifandi.
Húsfreyjan átti afmæli um daginn sem er svo sem ekki í frásögu færandi en mikið varð henni hlýtt í hjartanu þegar hún las 400 afmæliskveðjur á fésbókinni.
Nú hefst niðurtalningin fyrir það næsta...............það verður eitthvað ef að Guð lofar, eins og þar stendur.
Takk fyrir allar góðar kveðjur kæru vinir og kunningjar.
Hér í Hlíðinni er nóg að gera hvort sem það er í hesthúsinu nú eða fjárhúsunum, sauðburður handan við hornið og ýmislegt fleira skemmtilegt.
|
|
|
|
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir