12.04.2014 22:50

Loksins kom eitthvað

 

Þessi flotti hópur hefur nú lokið knapamerkjanámskeiði og öll stóðust þau lokaprófið með glæsibrag.

Eins og áður hefur komið fram hér á síðunni hefur Mummi verið að kenna knapamerki í Söðulsholti frá því snemma í haust. Hóparnir hafa mætt í kennslu á þriðjudögum og ekki vílað fyrir sér að mæta þrátt fyrir leiðindatíðarfar og oft á tíðum fljúgandi hálku. Alvöru mannskapur hér á ferðinni.

Fyrri hópurinn hefur nú lokið námi í bili en hinn hópurinn undirbýr sig nú af kappi fyrir loka prófið. 

Til hamingju þið sem hafið klárað og gangi ykkur vel sem eftir eruð.

 

Um þessa helgi er Mummi hinsvegar staddur í Svíþjóð að kenna og á meðan ég nuddaði stýrurnar úr augunum og bölvaði snjónum með morgunkaffið á kanntinum fékk ég senda mynd sem sýndi sól og blíðu.

Já já það er bara svona stundum.

Annars var komið sumar allaveg vor í síðustu viku, blíða sem gaf manni ómæld tækifæri til að ríða út jafnvel án föðurlands og lambhúshettu. Ég var komin í kunnuglegan vor gír þar sem ég taldi mér trú um að ég gæti gert allt og ætlaði jafnvel að gera það.

Þurrkaði fyrsta þvottinn úti þetta vorið, tók til í sauðburðarskápnum, fann nýja stílabók til að halda utanum ,,vitið,, í sauðburðinum, skoðaði fylfullu hryssurnar með betri augunum og skipulagði nánustu framtíð í þaula. Eitt augnablik datt mér í hug að þvo Hrútafjarðarseltun af gluggunum en sem betur fer rann það æði af mér fljótt. Mundi þær ófrávíkjanlegu staðreyndir að nokkur vorhret með norðaustan átt í fararbroddi eru ókomin. 

Tóm haughús og vel áborinn skítur hefur róandi áhrif á bændur og búalið þegar þessi tími er kominn. 

Og þrátt fyrir sóðafæri og sérstakan ,,ylm,, er nánasta umhverfi bara nokkuð fínnt þegar maður hugsar um árangurinn sem vonandi lætur ekki á sér standa þegar vorar fyrir alvöru.

 

 

Ég hef skroppið á nokkur skemmtileg hestamót og dæmt þar gæðinga m.a fór ég og dæmdi á ísmótinu ,,Þeir allra sterkustu,, um síðustu helgi. Framundan eru svo enn fleiri mót sem gaman verður að skoða.

Íþróttadómarar hittust í síðustu viku til að fara yfir og samræma vinnubrögð við notkun á nýja leiðaranum sem tekinn var í gagnið nú í apríl.