18.03.2014 21:29
Dramadrottning og hin drottningin
Það sem ég og þó aðallega Hringiða netþjónusta ráðum ekki við að setja inn nýjar myndir þá verður bara ein frá því í réttunum að duga með .
Það er búið að sónarskoða kindurnar hér í Hlíðinni og vitið þið hvað ?
Húsfreyjan er bara mjög sátt og þungu fargi létt af mannskapnum eftir hremmingarnar í fyrra.
Sjá blogg hér á síðunni frá því 23.03 2013.
Sunnudagurinn síðasti var dagurinn sem ég hafið hugsað til í marga mánuði og þá oftast með kvíðahnút í magnum. Guðbrandur á Skörðum kom og sónarskoðaði á fjórum bæjum hér í sveitinni þennan dag. Við höfum átt gott samstarf við sónaskoðunina hér á milli bæja í nokkur ár sem gerir þetta kindastúss bara enn skemmtilegra.
Byrjað var að sóna í Haukatungu síðan í Mýrdal, þá var komið að Hraunholtum og að lokum hér í Hlíðinni.
Andrés í Ystu-Görðum kom með flokkunargang sem reyndist frábærlega þegar kom að því að flokka féð eftir lambafjölda. Tær snild sem skoða þarf alvarlega fyrir næsta haust.
Svo kom okkar fremsta fólk í sauðfjárstússi úr Reykjavíkinni og Borgarfirðinum okkur til aðstoðar. Það er alltaf gott að eiga góða að.
Já það var hraður hjartsláttur og steinn í magnanum þegar fyrstu kindurnar rölltu inní flokkunarganginn góða. Ég beið við endann vopnuð spreybrúsunum sem notaðir eru til að merkja þær kindur sem eru eitthvað annað en tvílembdar. Geldar fá rautt, einlembdar fá blátt og þrílembdar grænt.
Minningin um á þriðjahundrað geldar kindur frá því í fyrra var óþarflega skýr.
Ég leit upp og bjó mig undir það sem koma skyldi með Pollýönnu vinkonu mína bakvið eyrað.
Nú jæja það var þá sjálf drottningin hún mikla Svört sem hafði tekið af skarið og smellt sér fyrst í röðina. Hún stóð hin rólegasta á meðan Guðbrandur sónaði hana með svip sem hæfir bara drottningum. Ég hugsaði með mér að þessi hefði nú oftast verið á toppnum í frjósemi en sennilega væri nú komið að einhverjum hremmingum.
Já já það var svona mest svart sem ég sá framundan þá stundina.
En viti menn Guðbrandur tilkynnti niðurstöðuna ,,þrjú í þessari,, og Svört gekk yfirveguðum skrefum inní merkingahólfið.
Úr augnaráðinu las ég ,,þó svo að hinar klikki þá stend ég við mitt eins og venjulega....... kæra stressaða húsfreyja,,
Hún Svört Kveiksdóttir er drottningin í fjárshúsunum og sennilega veita hún vel af því.
Það sem á eftir kom var framar björtustu vonum og er ekki annað hægt en fagna þeim niðurstöðum. Hún Svört mín gaf tóninn og hann var ekki falskur skal ég segja ykkur.
Það eru jú hátt á annað hundrað kindur í fjárhúsunum sem létu lömbunum í fyrra og því ekki sjálgefið að þær væru að standa sig.
Útkoman á gemlingunum er mjög góð svo nú verða þeir áfram í sérstöku dekri eins og þrílemburnar sem eru í miklu uppáhaldi hjá húsfreyjunni.
Ekki má þó gleyma því að nú er bara mars og ekki sjálfgefið að öll þessi lömb lifi það að vera skráð í fínu bókina ,,til nytja,, á næsta hausti.
Ef að allt gengur eins og til er ætlast og Guð lofar þá fæðast á annað þúsund lömb hér í Hlíðinni þetta vorið.
Það er gaman að vera sauðfjárbóndi en það getur verið helv.... töff.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir