31.12.2013 15:39
Gleðilegt ár
Það er við hæfi þegar farið er yfir viðburði síðasta árs hjá okkur hér í Hlíðinni að þessi mynd sé upphafið. Þarna er hún Hjaltalín frá Hallkelsstaðahlíð en það var einmitt hún og móðir hennar Skúta sem héldu okkur svo sannarlega á tánum í byrjun ársins. Ég ætla ekki að rekja þá sögu hér en það gerði ég hér á blogginu. (Sjá blogg 8 júlí s.l)
Því er hinsvegar við að bæta að mæðgurnar eru báðar eldhressar í dag en Skúta þarf samt að vera á sérstöku fóðri. Hún fór undir stóðhestinn Ölnir frá Akranesi en þar sem ekki er leyfilegt að sóna hana verður það bara að koma í ljós síðar hvernig hefur til tekist.
Hvað gerum við ekki fyrir drotninguna ?
Hjá okkur fæddust 9 folöld á árinu og sem betur fer hefur allt gengið vel með þau hingað til.
Við eigum von á 7-8 folöldum á nýju ári ef að allt fer sem ætlað er.
Mikið hefur verið að gera í tamningum og þjálfun bæði fyrir okkur og eins fyrir okkar góða fólk. Mummi hefur líka átt gott ár í reiðkennslunni en hann hefur verið með námskeið og sýnikennslur. Góður hópur er í knapamerkjakennslu hjá honum í Söðulsholti og eins hefur hann verið að taka nemendur í einkatíma.
Mummi hefur verið að fara til Svíþjóðar og nú á næstu bætir hann við í ,,landasafnið,, og mun á nýju ári skreppa á framandi slóðir.
Hann er með mörg spennandi hross í þjálfun svo það er sannarlega nóg að gera hjá kappanum.
Þarna er höfðinginn Gosi frá Lambastöðum en hann bíður örugglega spenntur eftir árinu 2014 eins og margir aðrir. Við höfum verið að temja á annan tug tryppa undan honum í sumar og haust, það er gaman skal ég segja ykkur.
Astrid er við nám á Hólum en síðast liðinn vetur fór hún í verknám til Randiar og Hauks á
Skáney. Hún hefur líka verið að fara aðeins út til Finnlands og verið þar með kennslu hjá henni Ansu okkar og fleirum. Á myndinni situr hún spennandi fola undan Glotta frá Sveinatungu sem að er í eigu hans Jonna á Kænunni ;)
Ég var að telja það saman um daginn að hér hafa verið að meðaltali 35 hross á járnum allt árið. Rúmlega 60 aðkomu hross hafa verið tamin þetta árið, sum hafa stoppað í mánuð en önnur hafa verið hér í mun fleiri mánuði. Bara gaman að spá í þetta allt saman.
Síðast liðið sumar var líka líflegt hvað ferðamennsku varðar en hingað til okkar komu fleiri hestahópar en áður hefur tíðkast. Móttökur, sýnikennslur og reiðsýningar fylgja svo það er alltaf líf og fjör þegar þessa hópa ber að garði.
Svo eru það líka þeir sem bara birtast og hafa gaman, fjölbreytileikinn gerir lífið bara skemmtilegra.
Þegar hestaáhuginn er mikill er nauðsynlegt að fylgjast með og reyna að auka við sig þekkingu.
Á árinu vorum við bara nokkuð dugleg að fara á námskeið og fyrirlestra, má þar m.a nefna námskeið hjá Eyjólfi Ísólfs sem haldið var í Króki, námskeið hjá Jakobi Sigurðs sem haldið var í Skáney og svo mætti áfram telja.
Þegar ég hugsa til baka þetta árið þá er mér afar ofarlega í huga allt það góða fólk sem starfað hefur og verið hjá okkur þetta árið. Ekki svo að skilja að það sé eitthvað nýtt að hjá okkur sé afbragðsfólk síður en svo. En ég hef kannske ekki alltaf hugsað um það hvað þetta er dýrmætt.
Ef að mér skjátlast ekki þá hafa verði hér átta manns á þessu ári auk frændfólks og vina sem eru okkur einnig ómetanleg. Þetta unga fólk hefur komið frá 4 löndum þ.m.t Íslandi.
Kærar þakkir fyrir það hvað þið hafið verið yndisleg, skemmtileg og dugleg.
Félagsmál hafa alltaf skipað stóran sess í mínu lífi og svo sannarlega kryddað það.
Nú í desember gaf ég ekki kost á mér til áframhaldandi formennsku hjá Félagi tamningamanna. Árin í félagsmálum hestamanna voru orðin mörg og svona ykkur að segja þá hrökk ég við þegar ég komst að því að ég hef starfað á þeim vettvangi í 25 ár.
Fyrst voru það félagstörf hjá Hesteigandafélagi Borgarness síðar Hestamannafélaginu Skugga, þá stjórn Hestaíþróttasamband Íslands, gjaldkeri Landsambands hestamanna, formaður Hestamannafélagsins Snæfellings, formaður Félags tamningamanna og auk þess seta í nefndum og ráðum. Til dæmis seta í Fagráði í hrossarækt og nefndum á vegum ráðuneyta.
Að starfa fyrir hestamenn er gaman og lærdómsríkt en það getur líka verið ansi krefjandi.
Þetta hefur verið frábær tími og síðast en ekki síst er það allt þetta fólk sem ég hef kynnst, því líkur fjársjóður. Takk fyrir samstarfið.
Árið var nokkuð viðburðaríkt hjá FT en uppúr stendur Gullmerki Einars Öder og meistarapróf Mette Mannseth. Það verður gaman að fylgjast með nýrri stjórn og ég veit að þessir flottu fulltrúar eiga eftir að standa sig með prýði.
Þessir öðlingar kvöddu okkur á árinu en þetta eru mæðginin Þorri og Deila.
Ég hef hugsað mér að smella hér inn við tækifæri umfjöllun um hana Deilu sem var stórkostlegur smalahundur og ótrúlega skynsöm tík. Hennar er sárt saknað en vonandi stendur Freyjan undir væntingum og fyllir uppí hennar skarð.
Hann Þorri kallinn var nú meira svona félagsskapur já alveg ágætis félagsskapur.
Hver segir að allir eigi að verða úrvals smalahundar ?
Það væri ekki satt ef að ég segði ykkur að sauðfjárárið hjá okkur hér í Hlíðinni hefði verið farsælt.
Ó nei öðru nær við vorum bara sleginn niður í orðsins fyllstu merkingu þegar við létum sónarskoða í vetur. Hátt á þriðja hundrað kindur höfðu látið lömbunum og þegar vorbókinni var skilað í vor hafði talan hækkað. Þetta þýddi að við fengum hátt í 500 lömbum færra en vejulega þetta árið til nytja.
En það hefur ekki bjargað neinum að væla svo það var ekki annað í boði en standa upp hrista sig og halda áfram. (sjá nánar á bloggi 23 mars)
Auðvitað birti upp og nú er allt komið á fullan snúning, húsfreyjan áhugasamari en nokkru sinni fyrr og meira að segja verslaði sér bæði kynbótahrúta og gimbrar. Að auki var svo fenginn hrútur að láni, annar kom í vist og nokkrar ær voru keyrðar af bæ til að eiga stefnumót við golsóttan rolludraumaprins.
Feðgarnir fylgjast með og segja gjarnan ,,æi mömmu þinni datt þetta í hug,, eða eitthvað í þeim dúr. Nú er bara að bíða og vona að ekki komi neitt uppá með hjörðina og allt fari vel.
Það er víst gaman að vera sauðfjárbóndi en því fylgir góð blanda af raunsæi og Pollýönnu.
Höfðinginn Salómon svarti fagnaði 14 árum þann 4 apríl síðast liðinn og er þar með ,,formlega,, fermdur. Samkvæmt formúlunni er hann því orðinn 98 ára í mannsárum.
Hann ber aldurinn vel vinnur hóflega, hvílir sig passlega og hagar sér skemmtilega.
Já það er krefjandi verkefni að vera hefðarköttur svo eins og sjá má á myndinni þarf hann líka að hita upp söðulinn fyrir húsfreyjuna.
Það má samt segja að árið 2013 hafi verði gott fyrir okkur hér í Hlíðinni, allir við góða heilsu og hvað er þá hægt að kvarta ? Að vísu eru þau í því ,,efra,, ekki að yngjast en það er víst lögmálið. Þau nutu allavega jólanna og gátu öll verið heima sem er ekki sjálfgefið þegar á þennan aldur er komið. Hann Ragnar er fluttur á Dvalarheimilið Brákarhlíð í Borgarnesi en kemur að sjálfsögðu heim um jól, réttir og aðra stórviðburði.
Um áramót er fólk gjarnan upptekið af því að strengja áramótaheit og með því að friða samviskuna eftir uppgjör ársins sem er að kveðja.
Auðvita á það líka við um mig jafnvel þó svo ég viti að það þýðir nú ekkert að basla í einhverju óraunhæfu. Er það ekki þroskamerki að sýna æðruleysi ?
Hver ætlar ekki að verða mjór á næsta ári nú eða því þar næsta ??
Hætta að reykja, drekka, taka í vörina.
Hætta að gera þetta eða hitt og kannske bara byrja að gera eitthvað sem er gasaleg hollt eða gaman.
Vera jákvæður og skemmtilegur nú eða hvað sem er.
Um þessi áramót kemur mér eitt áramótaheiti í huga.
Gæti hentað svo mörgum......
Vanda orðræðu, sýna virðingu og vera góð.
Það er jafn auðvellt að opna munninn og tala vel um samferðamennina eins og að lasta þá.
Héðan úr Hlíðinni sendum við okkar bestu óskir um gæfuríkt komandi ár með þökkum fyrir það liðna. Sjáumst hress og kát á nýju ári.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir