23.12.2013 22:37
Gleðilega hátíð
Já ég veit kæru vinir ritletin hefur verið við völd hjá húsfreyjunni síðustu vikurnar en hér kemur allavega jólakveðjan til ykkar.
Það er nú ekki þannig að ekkert hafi verið um að vera hér í Hlíðinni síðustu vikurnar þó að ég hafi ekki komið neinu í verk hér á síðunni.
Eftir aðalfundinn góða hef ég einungis mætt á einn fund en það var desember fundur Fagráðs í hrossarækt sem haldinn var fyrir stuttu. Skemmtilegur fundur en með þeim lengri sem ég hef setið eða sennilega sá allra lengsti heilir 11 tímar.
Margt var rætt og vonandi góðar ákvarðanir teknar sem nýtast hrossaræktinni í framtíðinni.
Það hefur verið líf í hesthúsinu og öll pláss þétt setin enda kominn sá tími þegar allt fer í fullan gang.
Natashja og Hanna fóru báðar heim fyrir jólin og njóta þess nú að vera með sínu fólki um hátíðirnar. Jens frá Þýskalandi sem kom til okkar og var hjá okkur í svolítinn tíma er líka farinn. Mikið hvað við eru heppin með þetta góða fólk sem til okkar kemur.
Takk fyrir samveruna þið eruð frábær.
Mikið fjör er núna í fjárhúsunum en jólagleði hrútana stendur nú sem hæst. Hér voru sæddar tæpleg 80 kindur og var það gert 13 og 14 desember. Hér voru notaðir 13 hrútar af sæðingastöðinni svo að vonandi kemur eitthvað spennandi út úr því.
Einn hrút fékk ég lánaða sunnan úr Borgarfirði og virðulegt ræktunarfélag sem ég tengist eignaðist annan sem hér er í notkun.
Ætti nú að smella inn myndum af þessu köppum við tækifæri.
Þann 14 desember settum við hrútana í gemlingana og strax upp úr því fórum við að setja hina hrútana saman við.
Ef að allt gengur upp hefst því sauðburðurinn aðeins fyrr en venjulega hjá okkur.
Já já ég spái góðu vori eins og þið sjáið.
Þann 21 heimtum við svo einn gemling með lambi en góður granni á Skógarströndinni fann fénaðinn. Alltaf gaman að fá kindur af fjalli.
Já nú eru það blessuð jólin sem eru handan við hornið.
Við hér í Hlíðinni sendum ykkur góðar jólakveðjur og vonum að þið hafið það sem allra best.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir