14.10.2013 22:18

Haustblíðan



Dásamlegt haustveður er munaður sem vel á að njóta til góðra og skemmtilegra verka.

Smalamennsku verktíðin er að mestu á enda og nú eru það bara frumtamningar og þjálfun sem hér eru stundaðar af fullum krafti. Já síðasti alvöru hópurinn fór í Skagafjörðinn í dag og þá eru bara eftir örfá lömb sem fara síðar. Smalamennskur gengu mjög vel í síðustu viku og ekki var síður góður gangur í fjárraginu um helgina. Það var góður hópur sem kom til okkar um helgina og hjálpaði til eins og venjulega þegar mikið liggur við í kindastússinu.
Alltaf gott að eiga góða að takk fyrir alla hjálpina, þið eruð ómetanleg.

Í dag var dregið undan þó nokkrum hóp hrossa sem nú eru farin í haustfríið góða.
Góður hópur er samt á járnum bæði í frumtamningu og önnur í söluþjálfun.
Mummi er farinn til Svíþjóðar að kenna og heldur námskeið á nokkrum stöðum bæði þar sem hann hefur verið áður og eins hafa bæst við nýjir staðir.
Bara spennandi hjá honum að hitta nemendurna sína frá því í fyrra aftur og eins að bæta við nýjum.

Norðurljósin voru falleg í kvöld og reyndi húsfreyjan að fanga þau á mynd en eitthvað eru tæknimálin að ergja hana því ekki vildu myndirnar inná síðuna.
Koma tímar koma ráð bara ef að þið bíðið aðeins.