15.08.2013 23:04
Af örnefnum og GPS
Þessi mynd er tekin í júní hér fyrir sunnan Stekkjaborg nánar tiltekið suður á Brúnum og ég stend á Stekkjarsandinum eftir að hafa farið yfir Stekkjartúnið.
Já þau eru mörg örnefnin sem hér eru og hafa haldist við um langt skeið, þökk sé þeim sem hafa haldið þessari vitneskju á lofti. Ábúendur, gamlir kúasmalar og áhugasamir afkomendur.
Eldri kynslóðin lærði öll þessi örnefi þegar kúnum var smalað eða hrossin sótt.
Þá var auðvellt að segja fólki til þegar farið var til fjalla að smala.
Ég verð að játa að ég tilheyri eldri kynslóðinni, sótti kýr, smalaði kindum og leitaði að hrossum.
Það var nefninlega þannig að til undantekningar heyrði ef að kýrnar voru ekki nokkuð á vísum stað, kindunum var smalað og þá með skipulögðum hætti en hrossin þau gátu verið víða. En það sem þetta stúss átti allt sameiginlegt var að maður lærði örnefni, annað var ekki hægt.
Mér finnst líka að hér áður fyrr hafi verið meira lagt uppúr því að vita hvað staðirnir hétu og væru. Það var smá vottur af manndómi og svolítið fullorðins að kunna mikið af örnefnum. Það var svona eins og með mörkin á kindunum, mikið kappsmál að læra og vera vel að sér í leitum og réttum. Það voru líka skýrar og greinilegar lýsingarnar sem voru sagðar þegar komið var heim úr smalamennskunum og verið að útskýra hvar kindurnar höfðu farið.
Sem dæmi þá er algengt að segja núna ,,ég fór inní Fossakrók,, en hér áður var lýsingin nákvæmari. ,, Ég fór upp með Stekkjarborg, inn Háholt, uppí Dýjadali, fyrir ofan Höggið og kom niður í Selbrekkuna og þá var ég næstum komin í Fossakrókinn,,
Sex örnefni í einni bunu og gætu verði miklu fleiri á þessari leið, en í daglegu tali nú til dags eitt.
Þegar ég var lítil fannst mér gaman að heyra sögur, ekki var verra ef að þær höfðu gerst hér heima eða í nágreninu. Sögur sem tengdust örnefnum gerðu líka það að verkum að maður mundi miklu betur hvar staðirnir voru.
Auðvitað man ég eftir Grýluhellir í Bæjarkastinu, Gálu í Gálutóftum, hryssunni Druslu sem lenti í drama í Síkinu, hundinum hans Einars sem týndist í Illagilinu og nautunum sem aldrei fundust í Nautaskörðunum.
Sögunni af Þyt sem dó inní Bjargurð, tófunni sem bjó í Sandfellinu og lék alltaf á skyttuna að ógleymdum draugnum á Bæjardalsbrúninni.
Einhverntímann eignast ég kannske GPS en þangað til æfi ég mitt alvöru GPS sem ég geymi í kollinum og passa að ekkert glatist.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir