13.08.2013 16:21
Sættir og sitthvað fleira
Þessar tvær eru bestu vinkonur og þarna eru þær að fá sér smá blund í sólinni, Hjaltalín litla dóttir Skútu og Álfarins frá Syðri-Gegnishólum og Hrefna Rós. Ef vel er að gáð sést að ljósmyndaranum er bara gefið hornauga hefur eflaust verið að trufla hvíldina.
Það var líflegt hjá okkur þegar stór hópur hestamanna kom hingað til okkar í gær með hátt í hundrað hross og á þriðja tug fólks í hnakki. Þarna voru amerískar konur á ferðinni undir dyggri stjórn Sigurðar á Stóra- Kálfalæk og hans fólks.
Eftir að hafa þegið veitingar undir berum himni var Mummi með stutta sýnikennslu fyrir hópinn. Að lokum var svo reiðsýning þar sem við sýndum þeim nokkra hesta.
Hópurinn hélt svo ferðinni áfram í dag en þá lá leiðin í Kolviðarnes og síðan út á Löngufjörur.
Tamningarnar halda áfram af fullum krafti en á myndinni eru tveir folar annar undan Faxa frá Hóli og hinn undan Gandálfi frá Selfossi. Bara spennandi gránar þar á ferðinni.
Gamlar myndir eru alltaf í uppáhaldi hjá mér, allavega svona flestar.
Þarna er mynd frá ræktunarbúsýningu Hallkelsstaðahlíðar á Kaldármelum árið 1997.
Húsfreyjan á Jarpi sem var undan Fáfni frá Fagranesi og Jörp frá Hallkelsstaðahlíð.
Mummi á Hring frá Hallkelsstaðahlíð sem var undan Blika og Stjörnu frá Hallkelsstaðahlíð.
Erla Guðný Gylfadóttir þáverandi verknemi frá Hólum á Snör undan Geisla frá Vallarnesi og Jörp frá Hallkelsstaðahlíð. Ragnar frændi minn á Blika sínum sem var undan Fáfni frá Fagranesi og Bliku frá Hallkelsstaðahlíð. Skúli á Dimmu sem var undan Geisla frá Vallanesi og Brúnku frá Hítarnesi.
Takið sérstaklega eftir glottinu á Mumma og hárinu á okkur Erlu Guðnýju :)
Talandi um hár............þarna er ein mynd frá permanettímabilinu en hér er ég með nokkrum góðum vinum á leið á Nesoddamót í Dölunum. Fyrir örstuttu síðan...........
Þetta eru þau Ör frá Stóra-Dal, Íra frá Hallkelsstaðahlíð og Bliki frá Hallkelsstaðahlíð.
Já það getur verið gaman að gramsa í gömlu dóti.
Framhald frá síðasta bloggi.............................við Salómon höfum náð sáttum eða öllu heldur hefur Salómon sannfært mig um að þetta var sannarlega slys sem gerðist hérna hjá okkur. Það var algjört óhapp að fuglinn flaug á tennurnar á honum og þurfti endilega að slasa sig á þeim. Fuglinn var líka fluttur inní hús til þess að betur væri hægt að ,,hlúa,, að honum.
Það var líka ekki skynsamlegt hjá stórslösuðum fuglinum að fljúga út um allt hús og klístra blóði á veggina.
Það var líka ekki gáfulegt hjá húsfreyjunni að henda ,,aðalbjargvættinum" (Salómon) út í miðjum eltingaleiknum. Enda gekk ekki vel að góma fuglinn þar sem nokkrir metrar eru til lofts og húsfreyjan þá haldin þeirri ,,ranghugmynd,, að Salómon hefði eitthvað með þetta að gera.
Bálreið og tautandi hélt hún því fram að ,,helv... kötturinn hefði veitt fuglinn og komið með hann inn. Hún hefur hugmyndaflug.................kellan...........
En það var líka með ólíkindum að húsfreyjunni kæmi það til hugar að Salómon gerði nokkuð af sér.
Hér sitjum við saman ég og Salómon og reynum að finna góða lausn svona heildarlausn eins og það heitir á fínu máli á öryggismálum fugla. :)
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir