24.06.2013 23:04
Er það ekki kallað ,,comeback,, ????
Snekkja Glotta og Skútudóttir frá Hallkelsstaðahlíð með knapa sinn og ræktannda Guðmund Margeir Skúlason.
Komið þið sæl og blessuð kæru lesendur.
Nú er kella mætt aftur á síðuna eftir langt og gott bloggfrí, já það var alveg orðið nauðsynlegt að taka smá hlé.
Jú jú það er allt í góðu hjá mér en svona ykkur að segja alveg í trúnaði þá var ég orðin hundleið á skrifunum mínum. Það er svona að vera alltaf með sjálfum sér.
Nú er ég aftur á móti full tilhlökkunnar að miðla með ykkur fréttum héðan ú Hlíðinni.
Já og vel á minnst, kærar þakkir fyrir póstana og hvattninguna til að halda áfram að skrifa.
Það er gaman að fá að vita að einhverjum finnist áhugavert að fylgjast með lífinu í sveitinni.
Það hefur ýmislegt á dagana drifið frá því ég skrifaði síðast, Mummi hefur verið nokkuð ötull við að taka þátt í keppnum. Hér er hann að ríða í úrslitum á íþróttamóti Skúgga og Faxa sem haldið var í Borgarnesi.
Þessi mynd er einmitt tekin á einu mótinu sem Mummi tók þátt í gæðingmóti Glaðs.
Þarna eru þeir Jón Ægisson bóndi á Gillastöðum og Mummi í verðlaunaafhendingu.
Bara kátir kallarnir.
Þessi mynd er tekin í Grundarfirði en þar var íþróttamót Hestamannafélagsins Snæfellings haldið. Einn flottasti bakgrunnur sem til er fyrir hestamyndir á mótum, svona eins og Kaldármelar.
Ein létt töltsveifla í góða veðrinu gerir góðan dag bara enn betri.
Já það er líf og fjör í hestamennskunni eins og við er að búast og nóg er nú framundan.
Hér í Hlíðinni eru fædd fimm folöld og fjórar hryssur eru enn ókastaðar.
Kolskör átti brúna hryssu undan Blæ frá Torfunesi sem hlotið hefur nafnið Hafgola.
Snör átti rauðblesótta hryssu undan Leikni frá Vakurstöðum sem hlotið hefur nafnið Snörp.
Tign átti brúnan hest undan Gosa frá Lambastöðum, hann er ónefndur ennþá.
Rák átti brúnan hest undan Gosa frá Lambastöðum og er hann einnig ónefndur.
Þríhella átti brúna hryssu undan Ugga frá Bergi og enn á efri að finna gott nafn á hana.
Það er sem sagt orðið tímabært að smella sér í hempuna og nefna gripina ekki gengur að hafa þau nafnlaus til lengdar.
Við höfum ekki haldið neinni hryssu sem af er en það stendur svo sannarlega til, nú er bara verið að velja stóðhesta, spá og spekulegra. Það er svo gaman.
Fjöldinn allur af hrossum er á járnum og mikið riðið út og tamið bæði fyrir okkur og aðra.
Dágóður hópur er hér af söluhrossum sem mér ber vonandi gæfa til að koma myndum af inná sölusíðuna sem fyrst. Annars er bara að hafa samband og kanna málið við lofum að taka vel á móti ykkur.
Astrid var að klára annað árið á Háskólanum á Hólum og lauk því með verknámi sem að hún tók hjá þeim Hauk og Randi á Skáney. Hún var þar í ca tvo mánuði og naut góðs af verunni hjá góðu fólki og snildarkennurum. Svo er stefnan tekin á þriðja árið á Hólum í haust.
Aldeilis flott hjá henni stelpunni.
Þarna er einmitt vinkona mín og heimasæta á Skáney Kristín Eir að fara að keppa á Sóló sínum. Þau kepptu í pollaflokki og voru bara kát með sig og mömmuna sem sýndi góða takta sem aðstoðar hestasveinn.
Þá að öðru, sauðburðurinn gekk þolanlega svona eftir allar hamfarirnar sem ég vil helst ekki rifja upp einu sinni enn. Allavega var gaman þegar vel gekk og okkar góða fólk kom til að hjálpa og njóta með okkur. Kærar þakkir þið öll sem komuð og voru okkur svooo mikilvæg.
Daníella og Klængur voru alveg ,,meðetta,, og þrílembingurinn lét sig svona hafa það :)
Hér eru fleiri upprennandi sauðburðarkonur sem sýndu heldur betur góða takta, Elva Rún og Kristín Rut.
Það sem uppúr stendur eftir sauðburðinn er hvað ég rosalega ánægð með þau fáu lömb sem við fengum undan hrútnum Stera. Þau verða alvöru eins og sagt er.
Ég er líka ánægð með ,,bónuslömbin,, sem við fengum því að ekki veitir af, sennilega verða lömbin hjá okkur ca 500 færri en venjulega.
Já lambalát er ekkert grín það skal ég segja ykkur.
Sláttur er ekki hafinn hjá okkur enda var sauðféð hér á túnunum langt fram eftir vori. Sprettan er á góðu skriði og vonandi verður þetta gott heyskaparár.
Það er margt sem ég á eftir að segja ykkur á næstunni svo endilega fylgjist mér hér á síðunni.
Gaman væri nú líka ef að þið sem tök hafið á munduð smella svo sem einu ,,læki,, á síðuna fyrir mig.
Nú er kella komin í gang og lætur ekki deigan síga svo glatt, folalda og mannlífsmyndir væntanlegar.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir