05.04.2013 21:32
Fullt af fréttum úr Hlíðinni
Það styttist óðum í að hryssurnar fari að kasta svo það er vel við hæfi að koma með mynd því tengdu.
Verð að nýta gamlar myndir á meðan húsfreyjan er myndavélarlaus myndasmiður.
Fyrir viku síðan var brunað á Stóðhestaveislu í Ölfushöllinn, það var sannkölluð veisla og mjög gaman að sjá marga gæðinga og flotta knapa.
Nokkrir hestar heilluðu mig sérstaklega, fyrstan skal telja Arion frá Eystra-Fróðholti sem mér fannst hreint frábær. Óskasteinn frá Íbishóli er ævintýri sem naut sín mun betur en á sýningunni í Borgarnesi þar sem hann var sýndur í ljósgeisla. Gaumur frá Auðsholtshjáleigu var glæsilegur og sýndi ótvírætt hversu góður gæðingur hann er.
Toppur frá Auðsholtshjáleigu, Konsert frá Korpu og Váli frá Efra-Langholti voru líka í feikna stuði.
Knaparnir sem mér eru að öðrum ólöstuðum lang eftirmynnilegastir eru Helga Una Björnsdóttir, Flosi Ólafsson og Þórdís Erla Gunnarsdóttir.
Helga Una og Bikar frá Syðri-Reykjum áttu stórgott atriði, falleg reiðmennska og gott samspil þeirra heilluðu mig. Flosi er einn af mínum uppáhalds ungu knöpum prúð og falleg reiðmennska sem svo sannarlega skilaði árangri á þessu kvöldi eins og oft áður.
Flosi og Möller frá Blesastöðum, já ég er ekkert búin að gleyma þeim.
Þórdís Erla og Gaumurinn eru mér ofarlega í huga eftir þessa kvöldstund og ekki var sýningin hjá henni síðri á Toppi, kraftur, gæði og sjarmi.
Ekki trúi ég öðru en þessir krakkar eigi bjarta framtíð fyrir sér sem úrvalsreiðmenn og þjálfarar. Fáguð reiðmennska sem skilar árangri og síðast en ekki síst falleg og hrokalaus framkoma við samferðafólkið.
Stóðhestaveislan stóð undir nafni gaman að sjá þetta allt saman.
Þulirnir voru frábærir og skiluðu öllum nauðsynlegum upplýsingum til okkar af þekkingu.
Takk fyrir skemmtunina allir þeir sem að þessu komu, mig er strax farið að hlakka til næstu veislu.
Það var góður dagur sem við í stjórn Félags tamningamanna áttum í Skagafirði í gær.
Hluti stjórnarinnar er í Skagafirði um þessar mundir svo við hin brunuðum norður til fundar við þau sem haldinn var á Hólum. Góður fundur þar sem mörg mál voru tekin fyrir og rædd.
Þegar við fórum norður komum við að Syðra-Skörðugili til að taka Elvar bónda með okkur á fundinn. Þar beið okkar dýrindis veisla og frábærar móttökur, ekki skemmdi svo fyrir að fá aðeins að líta við í hesthúsinu og skoða gæðingana. Ekki má svo gleyma því að skoða í fjárhúsin þegar að Skörðugili er komið.
Á Hólum var vel tekið á móti okkur eins og ævinlega, Víkingur fræddi okkur um það sem efst er á baugi þessa dagana. Við fylgdumst með í kennslustund, hittum kennara og nemendur.
Þegar maður kemur í Skagafjörðinn er ekki úr vegi að líta við á einhverjum bæjum og sjá hvað er í gangi hjá hestamönnum þar. Hersingin fór að Þúfum og þar fengum við að sjá marga spennandi gripi sem þar eru á járnum. Einnig skoðuðum við reiðhöllina sem Gísli og Mette hafa ný lokið við að byggja, björt og skemmtilega bygging sem alla hestamenn dreymir um. Dagurinn hefði þurft að vera mikið lengri :) Kærar þakkir fyrir góðan dag.
Já í gær.......ekki má nú gleyma því að höfðinginn hann Salómon svarti varð 14 ára gamall.
Hann tók áfanganum með mikilli ró, mætti á réttum tíma í morgunmat, lagði sig og lét ekkert trufla blundinn sem náði því að verða allt í senn morgun, hádegis, miðdegis og síðdegis.
En þessi elska var eldhress og tók á móti mér útí dyrum þegar ég kom úr Skagafirðinum vel eftir miðnættið. Salómon er snillingur af bestu gerð sem hefur skipað þann sess á heimilinu að engum dettur í hug annað en að hann sé konungurinn.
Freyja litla fjárhundur stundar stífar æfingar og telur eigandanum trú um að nú sé þetta allt að koma. Áhuginn er mikill og sennilega verður mesti vandinn að skemma ekki neitt.
Þó svo að kindur séu helsta áhugamálið hjá henni er það enn svo að hún dáist ómælt að köttum. Ég hef samt þá trú að hún sé ,,sumum,, fremri að greind og muni ekki láta hafa sig útí að smala þeim. Enda hefur Freyja ekki sýnt neitt sem bendir til pólutískraskoðunna, Guði sé lof fyrir það.
Samkvæmt nýjustu niðurstöðu hefur ekkert komið út úr rannsókninni sem gerð var á kindahópnum okkar og ég hef áður nefnt hér á síðunni.
Engar vísbendingar hafa komið fram sem geta rímað við eða skýrt hvað hefur gerst.
Rannsóknin heldur áfram en skemmst er frá því að segja að allt er í góðu hjá kindahópnum.
Fyrstu lömbin komu í heiminn 2 apríl en þá voru allri litlu páskagestirnir sem höfðu beðið óþreyjufullir eftir lömbum farnir. Það voru tvær hvítar gimbrar sem komu í heiminn og eru hinar hressustu.
Sauðburðurin hefst hjá okkur þann 5 maí en þá eiga sæðingsrollurnar tal, þann 7 gemlingarnir og síðan fer allt á fullt þann 9 maí.
Það er líf og fjör í hesthúsinu og mikið riðið út í blíðunni að undanförnu.
Fyrirmyndarhestur dagsins var hann Ábóti frá Brautarholti, sonur Öðu frá Brautarholti og Dyns frá Hvammi.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir