23.03.2013 13:18

Af gefnu tilefni



Þögn er gulls ígildi en þögnin mín hér á síðunni var ekkert tengd gulli öðru nær.
Hún er þannig til komin að ég hafði ekkert að segja í nokkra daga eftir að við sónarskoðuðum fjárstofnin hjá okkur. Með öðrum orðum rúmlega tvö hundruð kindur sónuðust tómar.
Eins og gefur að skilja er mikið búið að velta fyrir sér hvað veldur en ekkert augljóst hefur komið í ljós hvorki frá okkar hendi eða dýralæknanna. Sextíu kindur voru sendar í sláturhús en þar átti að taka úr þeim sýni og freista þess að komast að því hvað er að valda þessu.
Það skal tekið fram að útkoman úr gemlingahópnum er góð þ.e.a.s rúmlega lamb á gemling.
Margar spurningar hafa komið uppí hugann.
Dýralæknarnir telja ekkert sem bendir til þess að þetta sé smitandi þar sem að einn árgangur sleppur svona vel, en aðgát skal höfð.  Eins ef að ég tek sama fjölda og var geldur í fyrra og reikna með fengnum kindum núna þá er frjósemin góð í þeim hópi.
Þessar geldu kindur eru á mismunandi aldri, voru hjá 15 hrútum, átu af 6 jötum, voru í 12 króm drukku úr 12 vatnsrörum, fegnu engan fóðurbætir, ekkert ormalyf eða aðra meðhöndlun á þessum tíma.
Tveir kettir eru í húsunum en þeir halda sig mest í jötunni hjá gemlingunum sem komu best út.
Sjaldan eða aldrei verið gefið betra hey, ekki gefið úr sömu rúllunni á allar jöturnar.
Og af gefnu tilefni sumar fengu síld en aðrar ekki og þar á er enginn munur nema síður sé.

Nú bíðum við bara eftir því að fá niðurstöðurnar úr sýnatökunni og vona að eitthvað komi í ljós svo hægt sé að varast þessum leiðindum á næstu árum.

Eins og fram hefur komið ætlaði ég ekki að koma þessum upplýsingum á framfæri hér á síðunni.  Ég hef það að leiðarljósi að reyna eftir fremsta megni að íþyngja ekki fólki með neikvæðu rausi aðrir geta séð um það.
En þegar vinir og kunningjar voru farnir að hafa samband og spyrja mig hvort virkilega væri búið að skera allan bústofninn ? Hvort nokkuð lamb mundi fæðast að vori ?
 Hvort allt væri að fara fjandans til af síldargjöf ?
 Þá sá ég mig tilneydda til að smella hér inn smá upplýsingum.

Bústofn og mannskapur hér í Hlíðinni hafa það gott eftir efnum og ástæðum í það minnsta fögnum við vorkomu þrátt fyrir allt.

Einkunnarorð nýliðins Búnaðarþings voru ,,bændur segja allt gott,, ég hef ákveðið eftir langar og strangar samningaviðræður við sjálfan mig að gera þessi orð á mínum.