26.12.2012 21:05
Jólaró og líka jólafjör
Hér eru litlu flottu frænkur mínar að bíða eftir því að borðhaldið hefjist og að sjálfsögðu biðu þær þar sem útsýnið yfir pakkahrúguna var gott.
Já við höfum átt notaleg jól með öllum skemmtilegu hefðunum og ýmsu öðru sem ekki er hefðbundið en gott samt. Eins og venjulega borðuðum við öll saman í gamla bænum og sáum svo fólkið ungt og eldra taka upp gjafirnar. Síðan skelltum við okkur í það ,,neðra,, og tókum upp okkar gjafir. Kvöldið endaði svo með heljarinnar súkkulaði og kökuboði sem renndi stöðum undir það að sennilega er alltaf hægt að borða aðeins meira ef að viljinn er fyrir hendi.
Þessar dömur fengu m.a garn og lopa til að prjóna á hálfa þjóðina en sen betur fer bækur líka til að líta aðeins upp frá prjónaskapnum.
Þessi var ánægður með sínar gjafir en kortið frá nafna og fjölskyldu var samt best.
Daniela og Mummi að ræða eitthvað mjög merkilegt og Snotra reynir að leggja ,,voff,, í belg.
Fjörið getur orðið þreytandi og þá er gott að taka gæðastund með Snotru til að ná þreki fyrir pakkaopnun. Undir borði er bara ágætlega friðsælt.
Þegar litlu frænkurnar eru í heimsókn hér í gamla bænum stingur Snotra okkur af og flytur í gamla bæinn á meðan þær stoppa. Þegar þær fara drattast hún svo heim og gerir sér okkar félagsskap að góðu.
Feðgarnir voru brosleitir að fylgjast með þegar pakkarnir opnuðust einn af öðrum, já það er alltaf gaman að sjá gleðina yfir góðum gjöfum.
Við Salómon tókum eitt gott knús í tilefni jólanna og sættumst á að hann mundi ekki færa mér músasteik í jólamatinn.
Annars hefur margt verið að gerast síðustu vikuna sko annað en jólafjör.
Daginn fyrir Þorláksmessu þegar ég var u.þ.b að bruna af stað inní dali að sækja mér vestfirska eðalskötu fékk ég símtal. Á línunni var Kjartan bóndi á Dunki sem tjáði mér að ég ætti ljóngáfaðar kindur sem hefðu bara stokkið í veg fyrir sæðingamanninn sem átti leið um.
Nei nei þetta eru engin ósannindi, Ásbjörn frændi minn og frjótæknir var sannarlega á ferðinni, kindurnar hlaupandi niður við veg og þurftu á þjónustu að halda. Allt staðreynir sem renna stoðum undir það að kindur eru ekki sauðheimskar.
Þegar ég svo renndi í hlaðið á Dunki voru þeir búnir að smala kindunum heim í fjárhús.
Það var því kát kella sem brunaði heim með fimm kindur og vænan skammt af eðalskötu og hnoðmör. Takk fyrir smölunina Ásbjörn, Kjartan og aðstoðarfólk.
Eftir hádegi í dag annan dag jóla fékk ég svo annað símtal og nú var það Flosi nágranni minn á Emmubergi sem var á línunni. Hann hafði þá verið á ferðinni og séð til kinda, Flosi var ekkert að tvínóna við hlutina og rauk til og smalaði þeim heim að Dunkárbakka. Ekki var hamingjan minni með þessar sex kindur þó svo að engin skata væri sótt í sömu ferð.
Takk fyrir Flosi, eintóm hamingja að fjölga í fjáhúsunum.
Jólafrí er svolítið huglægt í sveitinni það þarf að gera öll útiverkin en þau eru gerð með öðrum hætti þegar maður er í jólafríi. Svo er bara að taka það rólega eins og hægt er og njóta þessa að vera jólakelling nú eða kall.
Mummi flaug til Svíþjóðar í nótt en þar biðu nemendur sem verða á reiðnámskeiði hjá honum fram að áramótum. Ef að allt gengur upp þá lendir hann seinnipartinn á gamlársdag og rétt nær í steikina eins og Astrid sem kemur heim frá Finnlandi sama dag.
Alltaf eitthvað fjör í gangi hér í Hlíðinni.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir