17.09.2012 23:19
Hún er nú bara 95 ára
Það er ekki leiðinlegt að hafa þetta útsýni út um eldhúsgluggann á svona góðviðris dögum.
En hvort við fáum svona veður til að smala í vikunni það er stóra spurningin ??
Til að vera við öllu búin hefur regngallinn verið dreginn fram í von um að það virki letjandi á úrkomuna.
Annars er sjálfsagður staðalbúnaður fyrir réttirnar föðurland, Lóu-ullarsokkar, regngalli og helst Nokia stígvél. Verst að þau eru illfáanleg, eru víst orðin tískuvara í úttttlandinu.
Já það þarf enga tískulöggu í sveitina þar eru bara allir flottir.
Hún var ekki af verri endanum gjöfin sem ég fékk í gær þó hún væri nokkrum áratugum eldri en ég. Enda veit ég fátt skemmtilegra en að fá svona gripi sem helst eru með sögu líka.
Þarna er á ferðinni markaskrá fyrir Snæfellsness og Hnappadalssýslu samin 1917.
Sömu mörkin voru í notkun hér í Hlíðinni þá og eru nú. Helstu breytingar eru sennilega þær að þá mörkuðu bændurnir með hnífum en nú markar húsfreyjan með töng.
Ekki veit ég hvenær farið var að númer lömbin en man að þegar ég var lítil var keyp hönk af állengju sem klippt var niður og tölustafirnir þrikktir á. Þau númer voru svo tekin úr þegar lömbin fóru í slátur eða þegar búið var að nefna lífgimbrarnar á haustin. Fullorðinsnúmer þekktust ekki þá en allar kindur nefndar eins og reyndar er gert hér enn þann dag í dag.
Ekki man ég heldur hvenær byrjað var að setja númer í fullorðna féð en það hefur sennilega verið í kringum 1990.
Hér á bæ eru líka til fjárbækur síðan fyrir fjárskipti og þær eru vel geymdar skal ég segja ykkur.
En aftur að markaskránni góðu sem ég hef verið að skoða, hún hefur að geyma 1226 fjármörk og 44 hrossamörk.
Já þessi markaskrá er góð viðbót við safnið hans Einars heitins frænda míns.
Takk kærlega fyrir þessa góðu gjöf.
Hér nokkrum bloggum neðar getið þið séð skipulagið varðandi réttir og leitirnar í vikunni.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir