13.09.2012 23:18
Gömul saga
Nokkur ár eru nú liðin frá því þessi mynd var tekin af okkur Heimalings-Golsu.
Eins og flestum sauðfjárbændum hefur mér verið hugsað til starfsbræðra minna fyrir norðan síðustu daga. Myndir þar sem verið er að draga fé úr fönn hafa vakið upp minningar frá löngu liðnum atburði sem að aldrei gleymast.
Mér fannst ótrúlega stutt síðan en auðvitað er það bara hversu minningin var slæm sem hún er svona ofarlega í huganum.
Til að staðfesta ár og tíma fór ég og fékk að fletta uppí dagbók Ragnars frænda míns. Það var reyndar alveg óþarfi að lesa dagbækur til að rifja þetta upp, að því komst ég svo sannarlega í gær. Þegar ég fór að minnast á þennan atburð sem ég ætla að segja ykkur aðeins frá opnaðist flóðgátt með upplýsingum um þessa daga hjá þeim systkynum í gamla bænum.
Það var árið 1972 þann 28 október sem var afmælisdagur Hrafnhildar ömmu minnar.
Þann dag gerði hörkubyl með þeim afleiðingum að hátt í 30 kindur fórust í Rögnaá.
Um morguninn þegar veður útlit og veðurspá voru slæm fóru móðurbræður mínir strax að smala. Veðrið versnaði fljótt og upp úr miðjum degi var ljóst að ekki næðist að koma öllu fénu heim. Árnar að verða ófærar, skyggni lítið sem ekkert og fé farið að leita í skjól hvar sem færi gafst. Mikil hætta skapaðist þegar féð fór að hrekjast undan veðrinu og leita skjóls á stöðum þar sem snjósöfnun var mikil. Hætta var á að féð mundi hrekjast í Hlíðarvatn með skelfilegum afleiðingum. Var því bruggðið á það ráð að safna því fé sem náðst hafði að koma út fyrir árnar saman á stað sem kallast Köst. Þar var staðið yfir því og þess gætt alla nóttina því ekki var viðlit að koma því heim í veðurofsanum. Ég hef oft hugsað um það hvernig það hefur verið að standa yfir fénu í brjáluðum byl heila nótt, eftir að hafa staðið í erfiðri smalamennsku allan daginn.
Og ekki voru kuldagallarnir komnir til sögunnar þá.
Morguninn eftir slotaði veðrinu svo hægt var að koma þessum hópi heim. Strax var farið af stað eftir svefnlitla eða svefnlausa nótt til að freysta þess að finna fleira fé.
Það var þá sem kom í ljós að stór hópur hafði farist í Rögnaá, drukknað í krapaelg og snjó.
Ég man vel þegar verið var að leita með löngum stöfum og prikum að kindum sem voru á kafi í sköflum. Sumar komu lifandi og náðu sér en aðrar voru ekki eins heppnar.
Sorgin var mikil hjá sjö ára stelpuskotti þegar í ljós kom að uppáhaldið hún Rössu-Golsa var á meðal þeirra kinda sem höfðu drepist í ánni. Fyrst var reynt að bera sig vel því það gerðu allir en þar kom að það var bara ekki hægt. Tárin fóru að skoppa og þá var ekki aftur snúið, Rössu-Golsa var syrgð með táraflóði og ekkasogum.
Í mínum huga er sagan mun lengri og ítarlegri en hún verður ekki sögð hér.
Mig langaði bara að deila þessu með ykkur því ég hef hugsa svo mikið um þennan atburð síðan hörmungarnar fyrir norðan hófust.
Bændurnir fyrir norðan eiga alla mína samúð og örugglega er einhver ungur sem misst hefur sína ,,Rössu-Golsu,, og saknar sárt.
Ég veit að það eru ekki allir sem skilja það hversu mikið mál þessar hörmungar eru fyrir fólkið þarna. Þetta er ekki bara tilfinningalegt tjón þetta er raunverulegt tekju og eignatjón.
Þegar fólk talar um það með háði að lömbin hafi hvort sem er verið á leið í dauðann fýkur í mig. Hvað geta menn verið heimskir ? Skylur fólk ekki að þetta er lífsafkoman hjá bændunum?
Auðvitað eru samt fleiri sem vita um hvað málið snýst og skylja að þetta eru náttúruhamfarir.
Ég sendi mína bestu straum til bændanna og allra þeirra sem koma að björguninni.
Megi ykkur ganga sem allra best í erfiðum aðstæðum.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir