22.08.2012 21:42

Dagur tvö



Kyrrlát kvöld......... það er dásamleg upplifun með stóran hrossahóp í góðra vina hópi.
Þarna erum við í rökkrinu að kveðja fylgdarfólkið okkar sem reið með okkur niður að Mýrdalsrétt í blíðunni í gær.

Dagurinn í dag var bjartur og skýr með 15 stiga hita, andvara og sólarskímu af og til.
Getur varla orðið mikið betra svona í hestaferð seinni hluta sumars.
Hrossin voru sæl og róleg þegar við rákum þau saman í girðingunni á Kolbeinsstöðum enda gat nú varla farið betur um þau.
Sverrir frændi minn á úrvalshestahaga með nægu rennandi vatni fyrir þreytt ferðahross.
Svolíðið þurfti að járna og var tíminn sem fór í það nýttur til að ferja bíla fyrir mannskapinn svo að allt yrði nú klárt þegar við kæmum í Hömluholt. Vaskir bílstjórar fóru í það.
Já það verður að skipta liði þegar allir eru í hestaferð til að njóta og nota.
Feðgarnir járnuðu, Arnar og Astrid voru íhaldsfólkið og húsfreyjan tuðaði því auðvitað voru það spari spari gripirnir hennar sem voru járnalausir. Kellu var tilkynnt að ef að hún tuðaði meira þá væri bara eitt í stöðunni og það væri að hún járnaði þessa spariræktun sína sjálf, nú eða hætti þessari ,,undantætingsreið,,  Hvort væri nú betra ???
Samræðurnar snérust því uppí alskynns hrossakaup um járningar í skiptum fyrir eldamennsku eða bakstur. Jafnvel var viðruð sú hugmynd að dregið væri úr potti hver ætti að bera ábyrgð á járningu húsfreyjubleiks.
En allt hafðist þetta og á endann varð allt tilbúið til brottfarar og þá var riði frá Kolbeinsstöðum niður með Hafffjarðará yfir hana og útá fjörurnar við Kolviðarnes.
Það lifnaði  óþarflega mikið yfir hrossahópnum þegar útá fjörurnar var komið en allt gekk vel og þegar Gísli bóndi í Hömluholti kom á móti okkur var stefnan tekin í land.
Í Hömluholti beið hrossana kærkomin hvíld, áður en við fórum heim gáfum við okkur þó tíma til að skoða tryppin hjá Gísla. Þar sem ég er mikill Glottaaðdáandi þá fannst mér gaman að sjá gullgóða Glottadóttir sem Gísli sýndi okkur í reið. Bara spennandi tryppi þar á ferð.
Það er gaman að fylgjast með ungu tryppunum þegar þau fara í sinn fyrsta rekstrartúr. Sum þeirra eyða orkunni í að þjóta fram og til baka en önnur finna sér stað þar sem þau eyða sem minnst af orku og litlar líkur eru á að eldri hrossin taki í þau. Einn upprennandi öðlingur fylgdi okkur sem riðum á undan í dag, gætti þess samt að fara ekki frammúr en var eins og hann væri teymdur við hliðina á hestunum. Ekki minnkaði uppáhaldið á honum hjá mér þegar í áfangastaðina var komið því þá var hann skammt undan, ekki frekur en tilbúinn til að ,,spjalla,, við okkur.

Á morgun er nýr dagur og þá verður haldið í vesturátt og fjörið heldur áfram.