21.08.2012 23:53

Dagur eitt



Nú er komið að því ................................. við erum lögð af stað í árlega hestaferð Ferðafélagsins beint af augum.
Myndin sem hér er fyrir ofan er ,,heimildarmynd,, frá venjubundnum matartíma sem við tökum gjarnan á svona ferðalögum. Þarna voru ber í matinn og  ,,borðhaldið,, hefðbundið.

Síðustu dagar hafa verið vel nýttir til járninga og undirbúnings fyrir ferðina, mér telst til að hér á bæ sé búið að járna á annað hundrað hófa. Hóflegt það eða finnst ykkur það ekki ?
Þó svo að ferðin hafi byrjað formlega í dag þá var Arnar frændi minn og ferðafélagi búinn að taka forskot á sæluna og kom ríðandi til okkar í gær. Já hann missir ekki nokkurn part úr ferðinni kappinn sá. Við fengum svo góða fylgd frá Siggu Jónu og Bjarka í Hraunholtum sem riðu með okkur niður fyrir Mýrdalsrétt.
Já ferðinn byrjaði sem sagt með því að við riðum héðan úr Hlíðinni og niður að Kolbeinsstöðum. Stutt og góð dagleið sem er gott fyrir menn og hesta svona í byrjun þetta er jú bland af fríi og vinnu bæði fyrir okkur og hrossin.
Það er stundum líflegt þegar lagt er af stað með stóran rekstur en það gekk bara vel í dag.
Við vorum sex sem riðum af stað héðan úr Hlíðinni, fjölgaði svo í Hraunholtum og á enn eftir að fjölga í hópnum á morgun. Þá bætist við Borgfirðingur, suðurnesjamaður og jafnvel einhverjir fleiri hver veit.
Ég ætla að reyna segja ykkur frá ferðinni jafnóðum ef að mér endist þolinmæði til að setjast við tölvuna og lemja lyklaborðið á kvöldin. Að sjálfsögðu verða sögurnar sannar nema þegar skemmtanagildi sögunnar skerðist af sannleikanum þá verður við því bruggðist.

Á morgun er ferðinni heitið í Hömluholt.