16.08.2012 12:01
Sumar og hiti
Mistur og hiti er það veður sem hefur verið í boði hér í Hlíðinni síðustu daga, svolítið sérstakt að fá rúmlega 20 stiga hita en enga sól. En að sjálfsögðu þökkum við fyrir alla góða daga hvernig sem notalegheitin eru tilkomin. Nú er hinsvegar kominn brakandi þurrkur hiti, blástur og sól.
Nýjustu hryssufréttirnar eru þær að nú eru Skúta komin heim fylfull eftir Álfarinn frá Syðri-Gegnishólum, Létt eftir Topp frá Auðsholtshjáleigu og Kolskör eftir Arð frá Brautarholti.
Rák var svo sónuð fyllfull hér heima en hún var hjá honum Gosa frá Lambastöðum.
Ferðahópar hafa verið hér á ferðinni síðustu daga reyndar eins og í allt sumar. Í vikunni kom hingað stór hópur sem var á vegum Íshesta eða þeirra heiðurshjóna Sigga og Ólafar á Stóra-Kálfalæk. Góður hópur í óvissuferð fór hér um síðast liðinn laugardag og reið árnar hér fyrir innan í miklum vatnavöxtum. Og fyrir nokkru riðu sveitungar að vestan hér um og fóru yfir Klifshálsinn og niður í Hítardalinn. Já það er búið að ríða allar helstu reiðleiðir til og frá okkur hér í Hlíðinni þetta sumarið.
Við eigum svo eftir að skella okkur í hestaferðina okkar þ.e.a.s árlega síðsumars og tamningaferð. Eruð þið með???
Hjá okkur í sveitinni er hellingur eftir af sumrinu þó svo að skólarnir séu að byrja og allt að færast í vetrarskorður hjá ,,venjulegu,, fólki. Ég hugsa oft um það hvað sumarið var miklu lengra allavega í kollinum þegar skólarnir byrjuðu í september og fólk gat verið í rólegheitum í ágúst.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir