29.04.2012 22:32
Lóan er komin að kveða.......
Nú er tíminn sem ég fer að hugsa um folöld og velta fyrir mér hvað hver hryssa komi með í vor. Stundum rætast óskirnar og stundum ekki en allt er þetta spennandi og góð afþreying fyrir hestadellufólk.
Myndin hér fyrir ofan er af henni Rák frá Hallkelsstaðahlíð sem er undan Trillu og Stæl frá Miðkoti. Hún á dekkra folaldið sem er Brák Piltsdóttir hitt folaldið er Andri sonur Hlyns frá Lambastöðum og Tryggðar frá Hallkelssstaðahlíð.
Dagurinn var góður, frábært vorveður og eftir rigningu gærdagsins er allt að verða grænt.
Já allt er vænt sem vel er grænt...........nema........nei nei ekki vera leiðinleg.
Góðir gestir komu við í hesthúsinu og heilsuðu uppá okkur, bara gaman.
Útigöngukindin góða Lambabamba bara stærðarinnar gimur í gærmorgun. Þrátt fyrir hvað hún leit vel út þegar hún kom af fjalli fyrir stuttu síðan er ljóst að eitthvað hefur klikkað í fengitímafóðrinu því að hún var einlemd.
Fuglakórinn verður betur skipaður með hverjum deginum og sífellt bætast nýjar raddir við.
Lóan, hrossagaukurinn, stelkurinn, tjaldurinn og fleiri og fleiri komnir í Hlíðina.
Er ekki bara komið sumar???
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir