03.04.2012 21:31

Stórfréttir eða þannig......



Þessi mynd er tekin á aðalfundi Hestamannafélagsins Snæfellings sem haldinn var fyrir stuttu.
Á fundinum voru heiðraðir nokkrir félagsmenn fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.
F.v Gunnar Sturluson formaður Snæfellings, sem veitti viðurkenningarnar, Leifur Kr Jóhannesson, Tryggvi Gunnarsson, Högni Bæringsson, Hildibrandur Bjarnason, Sesselja Þorsteinsdóttir, Ragnar Hallsson, Gunnar Kristjánsson, á myndina vantar Bjarna Alexandersson.
Innilega til hamingju heiðursfólk.



Þessir kappar voru ánægðir með kvöldið og hafa vafalaust getað rifjað upp eitthvað skemmtilegt frá gömlum Kaldármelaárum.

Eins og þið hafið tekið eftir þá hef ég verið löt við skriftir síðustu vikurnar og kemur þar margt til en aðallega leti. Nú er að taka sig á og segja ykkur margar nýjar fréttir því ekki hefur verið tíðindalaust hér í Hlíðinni.
Letin gekk svo langt að ég meira að segja laug engu hér á síðunni þann 1 apríl. Ég hefði samt getað sett inn frétt þann daginn sem að fáir hefðu trúað. Það var nefninlega þann daginn sem að ég fékk það staðfest að ég væri búin að vera ,,fótbrotin,, í eitt og hálft ár. En eins og læknirinn sagði mér þá get ég ekkert gert ekki einu sinni búist við vorkun því þetta gerðist fyrir svo löngu síðan.  Og þar sem ég er nú enginn léttavarningur þá hefur þetta verið ágætis prófraun á styrkinn í leggnum og sársaukamörkin.
Ekkert væl og  nú er bara að smella sér í gifsi ef að minnsti vafi leikur á heilbrigði.

Sauðburður hófst hér þann 31 mars en þá bara tvílemba og tveimur dögum seinna einlemba.
Alltaf gaman að fá páskalömb og vorboða í fjárhúsin.



Síðustu daga hef ég heyrt svona með öðru eyranu auglýsingu í útvarpinu sem segir ,,Taktu þátt í páskaævintýri Freyju,, og sú varð raunin eitt kvöldið. En það ævintýri var ekki í boði sælgætisgerðarinnar Freyju, ónei heldur var það í boði okkar einu sönnu smala Freyju.
Ég sat fyrir framan tölvuna og las stóðhestaauglýsingar af miklum móð þegar friðurinn var skyndilega rofinn með gellti í hundunum og háværum öskrum í húsbóndanum.
Ég leit upp og hugsaði hver ands....  gengur á ??? Ætlaði svo að halda skoðunarferðinni í Stóðhestalandi áfram en þá byrja lætin fyrir alvöru. Ég heyri fjórhjólið fara í gang og tætast af stað með meiri látum en nokkur sinni fyrr. Það kvein í hjólinu, kallinn öskraði og hundarnir gjörsamlega brjáluðust.
Á næsta augnabliki............HVAR ER SAL'OMON????????
Ég rauk út og var í huganum búin að útrýma a.m.k hundastofninum áður en ég komst fyrir húshornið til að kanna hvað gengi á.
Það næsta sem ég sá var að Freyja og Skúli stigu villtan stríðsdans upp með læk og voru greinilega búin að stilla saman strengi og spiluðu kappleik í sama liði.
Mér létti heilmikið því ég var sannfærð um að ef kappleikurinn væri um Salómon þá væru þau ekki samherjar. Eftir stutta stund komu þau til baka og mátti ekki á milli sjá hvort þeirra var stoltara Freyja eða Skúli.....................Freyja reyndar með tannaför á nefinu en ekki Skúli.
Ófeigur og Þorri höfðu reyndar barist við óvininn alveg þangað til Skúli og fjórhjólið komu á vettvang. (Þá hættu þeir þar sem hávaðinn var kominn yfir hættumörk). En þegar þau komu heim fögnuðu þeir ákaft og voru sannfærðir um að þeirra þáttur hefði að minnsta kosti gert það að verkum að minkurinn varð ekki eldri.
Freyja hefur aftur á móti lengt vinnuheitið sitt sem núna er smalafjárminnkaveiðihundur.



Þann 4 apríl verður svo þessi höfðingi 13 ára sem sagt 13x7=91 árs geri aðrir betur.
Svo ungur og sætur ennþá þessi elska og svaf vært í sófanum þegar bardaginn mikli fór fram.
Enda eins gott.