01.12.2011 21:43
Frost á fróni
Þessi mynd heitir ,, að kasta toppi,, kannske þekkir einhver toppinn fína ?
Það er vetur í Hlíðinni þessa dagana þó nokkur snjór en frostið ekki eins mikið og spáð var.
Ljómandi gott reiðfæri og mun bjartara en á meðan vorveðrið var um daginn, já alltaf getur maður fundið eitthvað jákvætt við þetta allt saman.
Fyrir stuttu síðan byrjuðum við að gefa útigangshrossunum sem að tóku því fagnandi. Folaldshryssurnar eru sér og fá fyrirmyndarmeðferð og þjónustu eins og vera ber.
Þessa dagana hafa nokkur tryppi frá okkur verið járnuð í fyrsta sinn og eru að byrja að spreyta sig í skóla lífsins. Þetta eru m.a Snekkja dóttir Glotta frá Sveinatungu og Skútu hans Mumma en Snekkja sigraði folaldasýningu í Söðulsholti og var valin folald sýningar á sínum tíma. Blástur undan Kolskör minni og Gusti frá Hóli, Léttlindur sem er undan Létt og Hróðri frá Refsstöðum, svo að eitthvað sé talið. Nú er bara að sjá hvernig gengur á næstunni.
Nú er ég alveg hætt að þora að segja ykkur frekari hrútaheimtusögur en verð þó að læða þeim upplýsingum að ykkur að ef að þið finnið mig ekki seinni hluta vetrar þá verð ég sennilega farin í sauðburð í Dalina.
Verður maður ekki að reyna að klóra uppí meðlögin hjá þessum víðförlu flökkuhrútum ?
Í kvöld var svo tekin smá húsmóður snúningur og bakaðar tvær smákökutegundir.
Ég var reyndar búin að gera eina góða uppskrift en það er líka búið að borða kökurnar svo að ekki verða þær notaðar á jólunum. Það voru góðu kornflekskökurnar sem að ég fékk uppskrift af hjá henni Ástu á Heggsstöðum á sínum tíma. Æðislegar kökur og ekki skemmir fyrir hvað góðar minningar rifjast alltaf upp þegar ég geri þær og hugsa til Ástu.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir